Kjálkanes með 23,6% í Pharmarctica

Deila:

Fjárfestingarfélagið Kjálkanes, systurfélag útgerðarfélagsins Gjögurs á Grenivík, eignaðist 23,6% hlut í lyfja- og snyrtivörufyrirtækinu Pharmarctica við hlutafjáraukningu á síðasta ári. Auk Kjálkaness tók Fjárfestingarfélagið Fjörður, sem er í eigu Kristjáns Vilhelmssonar, meðeiganda og framkvæmdastjóra hjá Samherja, þátt í fjármögnuninni og eignaðist 9,2% hlut í Pharmarctica. Frá þessu er greint á vb.is

Í nýbirtum ársreikningi Pharmarctica kemur fram að innborgað hlutafé hafi numið 125 milljónum króna á síðasta ári.

Þegar hlutafjáraukningin var tilkynnt í júlí 2021 kom fram að fjármögnunin yrði nýtt í að stækka framleiðsluaðstöðu Pharmarctica, sem er staðsett á Grenivík. Stefnt var að því að húsnæðið yrði um 710 fermetrar að grunnfleti og 910 fermetra gólfflötur.

Grýtubakkahreppur er aðaleigandi Pharmarctica í gegnum félagið Sænes sem fer með 67,2% hlut í lyfja- og snyrtivörufyrirtækinu. Til samanburðar átti sveitarfélagið 97,6% hlut í Pharmarctica í árslok 2020.

Stærstu hluthafar Kjálkaness eru systkinin Anna Guðmundsdóttir og Ingi Jóhann Guðmundsson með samtals 45% hlut. Þá eiga Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair, og systkini hans samanlagt álíka stóran hlut. Kjálkanes er næst stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar. Kjálkanes gerir út skipin Hákon, Áskel og Vörð.

 

Deila: