Vill að dagróðrarbátar fái allan byggðakvóta

Deila:

Ein af helstu kröfum Landssambands smábátaeigenda á nýju fiskveiðiári er að byggðakvóta verði aðeins úthlutað til útgerða dagróðrarbáta. Afar erfitt sé fyrir þessar útgerðir að eignast kvóta auk þess sem slíkt fyrirkomulag kæmi smærri byggðalögum afar vel. Frá þessu er greint á ruv.is

Það hefur lengi verið krafa samtaka í smábátaútgerð að reglugerðum verði breytt þannig að allur byggðakvóti færist frá stórum útgerðum með mikil umsvif, til útgerða dagróðrarbáta.

Besta útkoman fyrir smærri byggðarlög

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir að aukinn kraftur verði settur í þessa kröfugerð á nýju fiskveiðiári. „Af því að við finnum bara, þegar við höfum séð hvernig byggðakvótinn er nýttur, að það kæmi byggðunum langbest að þetta væru dagróðrarbátar sem fengju byggðakvótann.“

Mikil samkeppni um kvóta

Þá muni það smærri útgerðir mjög miklu að fá auknar heimildir með þessum hætti. „Við sjáum að það er orðið mjög þröngt á kvótamarkaðnum, flestar af þessum einyrkjaútgerðum vantar kvóta og þeir geta bara ekki fengið neitt leigt. Stórútgerðin situr alveg fyrir hverju einasta kílói sem er veitt.“

Viðræður framundan við stjórnvöld og sveitarfélög

Nú þurfi hljómgrunn fyrir þessar hugmyndir hjá atvinnuveganefnd Alþingis og matvælaráðherra, en einnig hjá byggðarlögum sem þarna eiga hagsmuna að gæta. „Þetta verði líka til þess að það verði meira aflögu inn í strandveiðarnar sem að byggðalögin hafa svo sannarlega notið góðs af.“

Byggðakvótinn samtals um 13.500 tonn

Byggðakvótinn er í tvennu lagi, almennur og sértækur byggðakvóti, samtals um 13.500 tonn. Örn segir að þorskur og ýsa séu mikilvægustu tegundirnar fyrir dagróðrarbáta, en rúmur helmingur byggðakvótans er þorskur. „Okkur finnst að við eigum ekki að þurfa að kljást við stærstu fyrirtækin í sjávarútvegi um einhver nokkur tonn sem munar þá engu.“

 

Deila: