Nýr frysti- og kælibúnaður ÚA eykur rekstraröryggi fiskvinnslunnar

Deila:

Frysti- og kælibúnaður fiskvinnslu Útgerðarfélags Akureyringa hefur verið uppfærður að stórum hluta á síðustu tveimur árum. Með nýjum búnaði eykst rekstraröryggi og hagræði til mikilla muna, auk þess sem kerfin eru umhverfisvænni en þau gömlu. Kælismiðjan Frost á Akureyri var helsti verktakinn í breytingunum en Frost er leiðandi fyrirtæki í kælitækni hér á landi. Guðmundur Hannesson framkvæmdastjóri segir að verkefnið í ÚA hafi verið nokkuð umfangsmikið og á köflum flókið. Um þetta er fjallað í færslu á heimasíðu Samherja

Mikil sjálfvirkni

„Viðhald búnaðarins hefur verið með ágætum í gegnum tíðina en engu að síður var kominn tími á endurnýjun og uppfærslur. Í kerfum hússins sem áður hýsti rækjuverksmiðjuna Strýtu var notast við freon sem kælimiðil en uppfærður búnaður notar ammoniak sem er algjörlega náttúrulegt efni. Sjálfvirknin er líka umtalsverð og nýi búnaðurinn nýtir orkuna margfalt betur en sá gamli. Í sjálfu fiskvinnsluhúsi ÚA hefur kæli- og frystikerfið sömuleiðis verið endurnýjað, þar voru settar upp kælipressur með mun betri nýtingu en þær gömlu, sem höfðu þjónað sínum tilgangi vel og lengi. Einnig voru

Fiskbitar á leið inn í lausfrystinn.

settir upp plötuvarmaskiptar sem nýta orkuna mun betur.“

 

ÚA stendur framarlega á sviði kæli- og frystibúnaðar

„Helsta áskorunin í þessu öllu saman var sjálfsagt að samþætta nýjan og eldri búnað, sem var að mestu gert þegar fiskvinnsla lá niðri vegna sumarleyfa. Þess vegna var lögð höfuðáhersla á góðan og vandaðan undirbúning á öllum sviðum og ég segi hiklaust að vel hafi tekist til. Framkvæmdum er ekki lokið að fullu en með þeim uppfærslum sem þegar eru að baki er engu að síður hægt að fullyrða að Útgerðarfélag Akureyringa stendur ansi framarlega hvað kæli- og frystibúnað snertir.“

Álag á búnaði allt annað

Guðmundur segir að tækniframfarir í frysti- og kælikerfum séu örar.

„Já, sannarlega en þó snýst þetta svo sem alltaf um hið sama, kæla eða frysta afurðir. Við getum hæglega borið þetta saman við framleiðslu á bílum, sem hafa alla tíð verið á fjórum dekkjum. Í dag sjá tölvur um eftirlit og öryggið hefur aukist til mikilla muna, auk þess sem orkunýtingin er til muna betri en á árum áður. Á eldri pressunum keyrðu mótorarnir alltaf á fullu álagi, hvort sem mikið álag var á kerfinu eða ekki. Á því nýja er álagið alltaf í samræmi við þörfina á hverjum tíma.“

Tölvur vakta kæli- og frystikerfið.

Samanburðurinn eins og svart og hvítt

Jakob Björnsson vélstjóri hjá ÚA segir að nýja kerfið reynist vel. Auk Frosts sáu Rafeyri og Raftákn um framkvæmdir ásamt starfsfólki Útgerðarfélags Akureyringa og Samherja.

„Þetta er gríðarleg breyting, það er ábyggilegt. Ég er ekki frá því að orkusparnaðurinn sé á bilinu 20 til 30 prósent og það munar um minna. Núna sjá tölvurnar um að fylgjast með mörgum þáttum, þannig að rekstraröryggið er allt annað. Rafmagnið hefur sömuleiðis verið endurnýjað að stórum hluta, svo sem í aðaltöflum. Þótt gamla kerfið hafi á margan hátt verið ágætt, er samanburðurinn eins og svart og hvítt.“

Fylgist með búnaðinum í gegnum farsímann

„Já, ég get fylgst með öllu kerfinu í gegnum farsímann minn. Ef eitthvað bilar fæ ég skilaboð samstundis og í því felst auðvitað mikið öryggi. Þessar breytingar hafa í raun gengið ótrúlega vel fyrir sig, enda var kappkostað að vanda allan undirbúning. Við búum svo vel hérna á Akureyri að geta leitað til fyrirtækja sem hafa góða þekkingu á sviði fiskvinnslu, sem er klárlega mikils virði. Enda er Eyjafjarðarsvæðið þekkt víða um heiminn fyrir faglega þjónustu og góðar lausnir á sviði sjávarútvegsmála,“ segir Jakob Björnsson vélstjóri hjá Útgerðarfélagi Akureyringa.

Jakob Björnsson vélstjóri fylgist með í gegnum farsímann sinn.

 

Deila: