Datt í stútfullt kar af sprelllifandi steinbít
Maður vikunnar er nú kominn úr „sumarfríi“ og fyrst til sögunnar á nýju fiskveiðiári er hún Hadda. Hún er Vestfirðingur að uppruna, en starfar sem verkstjóri á Soffaníasi Cecilssyni í Grundarfirði.
Nafn:
Halldóra Dögg Hjörleifsdóttir ávallt kölluð Hadda 😉
Hvaðan ertu?
Ég kem frá Haukadal í Dýrafirði (Vestfirðingur)
Fjölskylduhagir?
Ég er gift mínum elskulega eiginmanni Sigurði Friðfinnssyni skipstjóra á Hring – SH. Við eigum 6 börn saman, sem sagt ég á 3 börn og 3 stjúpbörn, eitt barnabarn og annað á leiðinni. Svo verður að nefna prinsessuna okkar hana Aríu sem er af hundategundinni Cavalier.
Hvar starfar þú núna?
Verkstjóri hjá Soffanías Cecilsson hf.
Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg
Ég var um 13 – 14 ára þegar ég fékk að vinna í frystihúsinu heima á Þingeyri á sumrin.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?
Það er svo margt ekkert eitt sem stendur uppúr alltaf jafn gaman og krefjandi.
En það erfiðasta?
Man ekki eftir neinu sérstöku erfiðu bara skemmtilegum áskorunum.
Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?
Sennilega þegar ég fór á sjó á línubát frá Flateyri þá 17 ára og datt óvart í steinbítskar í túrnum, held að flest allir geta ímyndað sér hvernig það er að detta ofaní stútfullt kar af sprelllifandi steinbít.
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?
Get ekki dregið neinn sérstaklega upp þar sem ég hef verið svo heppin með skemmtilegt fólk í kringum mig.
Hver eru áhugamál þín?
Klárlega fjölskyldan og góðri vinir í því fyrsta en þau eru ansi mörg áhugamálin, mér finnst gaman að prufa allskonar hluti en ef ég þarf að nefna eitthvað Þá er það að fara fjórhjólaferðir, spila fótbolta og horfa á fótbolta, golf finnst mér líka mjög gaman og bara öll almenn hreyfing.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Það er vestfirskur plokkfiskur í sparifötum sem Sigurður maðurinn minn eldar af sinni alkunnu snilld, það er ekkert sem toppar hann. Hvorki manninn né plokkfiskinn 😊
Hvert færir þú í draumfríið?
Á Narrow boat í Englandi með manninum mínum.