Málstofa Hafró fjallar um rusl á hafsbotni

Deila:

Fimmtudaginn 22. september kl. 12:30 verður málstofa Hafrannsóknastofnunar haldin í fundarsal á 1. hæð að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði.

Petrún Sigurðardóttir flytur erindið: Rusl á hafsbotni við Ísland: Samantekt á skráningu rusls við kortlagningu búsvæða á hafsbotni 2004-2019.

Erindi verður streymt á YouTube rás Hafrannsóknastofnunar, https://www.youtube.com/channel/UCirTCP_aKFKz8LMoFoxWGbA

Ágrip

Hingað til hefur lítið verið vitað um örlög rusls í hafinu við Ísland en algengt er að sjá rusl á ströndum landsins og oft kemur rusl upp með veiðarfærum. Í þessari skýrslu er farið yfir dreifingu rusls sem hefur fundist á myndefni af hafsbotni sem var tekið fyrir verkefnið Kortlagning búsvæða á hafsbotni á ýmsum svæðum í kringum landið.

Rusl fannst á 15 af 21 svæði, eða 22% sniða (72 af 325). Samtals fundust 307 ruslaeiningar og var uppreiknaður meðalþéttleiki 872 ruslaeiningar km-2. Langalgengastar voru fiskilínur og voru flestar þeirra á Reykjaneshrygg, eða 151 einingar með þéttleika upp á 5.096 ruslaeiningar km-2.

Áberandi var að línur og trollnet fundust flækt við eða innan um kóral og steina. Línur og trollnet geta skemmt viðkvæm búsvæði eins og kóralbreiður sem geta verið mjög lengi að jafna sig eftir skemmdir þar sem kóralar eru hægvaxta. Hlutfallslega lítið sást af almennu rusli (18 einingar). Mest af ruslinu var einhvers konar plast. Flest nútíma veiðarfæri eru auk þess gerð úr sterkum plastefnum sem taka afar langan tíma að brotna niður. Því mun magn rusls á hafsbotni að mestum líkindum aukast með tímanum.

Mikilvægt er að reyna að takamarka það magn rusls sem endar í hafinu og passa upp á viðkvæm búsvæði svo eyðilegging af mannavöldum verði ekki meiri en raun ber vitni. Enn er lítið vitað um örlög og áhrif rusls í hafinu og því mikilvægt að stunda frekari rannsóknir á því hvar rusl safnast saman og hvernig það hefur áhrif á vistkerfi í hafinu ásamt því að skoða samspil veiðiálags og rusls á hafsbotni.

Um Petrúnu

Petrún Sigurðardóttir útskrifaðist frá Háskóla Íslands með BSc gráðu í líffræði árið 2016 og hóf sama ár nám í háskólanum í suður Danmörku (SDU) þar sem hún rannsakaði vistfræði lífvera innan um bóluþang í endurheimtu sjávarlóni. Á meðan á náminu stóð fékk hún sumarstarf hjá Hafrannsóknastofnun árið 2017 þar sem hún vann við gagnavinnslu og skýrsluskrif um rækjuveiðar á Botnsjávarsviði. Næsta sumar, árið 2018, útskrifaðist hún með MSc gráðu í líffræði frá SDU og var þá ráðin inn á Uppsjávarsvið Hafrannsóknastofnunar, þar sem hún vann mest í áturannsóknum. Vorið 2019 fór hún yfir í sýnatöku- og aldurslesturshópinn innan stofnunarinnar. Frá þeim tíma hefur hún unnið við aldursgreiningar á þorski ásamt því að vinna við greiningar á myndefni af hafsbotni. Við þessar myndgreiningar myndaðist áhugi á rusli í hafinu og var ákveðið að taka saman dreifingu og magn rusls sem hafði fundist með þessum hætti.

 

Deila: