Allt um kvótaúthlutun á nýju fiskveiðiári í Ægi

Deila:

Sjötta tölublað Ægis er helgað úthlutun aflaheimilda á nýhöfnu fiskveiði ári. Í því er að finna allar helstu upplýsingar  um úthlutunina. Auk þess eru í blaðinu áhugaverð viðtöl um málefni sjávarútvegsins.

Rætt er við Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóra Þorbjarnar ehf. um hagræðingu síðustu ára, nýtt skip fyrirtækisins og stöðu veiða og vinnslu. Pálmi Gauti Hjörleifsson, skipstjóri á frystitogaranum Snæfelli EA-310 segir spennandi tíma vera framundan. Sagt er frá fjölbreyttri sjávarútvegssýningu sem framundan er í Laugardalshöll. Vigfús Vigfússon, strandveiðikóngur sumarsins segir engin trix vera í ufsanum. Fjallað um strandveiði sumarsins. Alexander Polson, fyrrum útgerðarmaður á Hjaltlandseyjum ráðleggur Íslendingum að forðast Evrópusambandið.

Jóhann Ólafur Halldórsson segir meðal annar svo í leiðara blaðsins:

„Ástæða þess að kvótakerfið kom til fyrir tæpum fjórum ára[1]tugum var ofveiði og of stór fiskiskipafloti. Framan af varð aflinn jafnan talsvert umfram ráðgjöf og úthlutun aflaheimilda en frá 1990 hefur verið meira samræmi í ráðgjöf og afla. Frá árinu 2009 hefur ráðgjöf verið fylgt við ákvörðun um úthlutun aflaheimilda.

Mesti þorskaflinn á Íslandsmiðum var árið 1981, 461.000 tonn, meira en tvöfalt það magn sem nú verður til skiptanna. Sveiflurnar hafa verið miklar því sem dæmi var ráðlagður þorskafli fiskveiðiárið 2008/2009 aðeins 124.000 tonn. Engu að síður var þá úthlutað 160.000 tonnum. Það virðist skrifað í skýin að veiðiþol þorskstofnsins þokist ekki langt yfir 200.000 tonnin, litið yfir lengri tíma.

Sé horft til allra mögrustu áranna í þorskveiðinni frá því kvótakerfið var tekið upp er það ekki alslæmt en líkast til höfðu margir mun meiri væntingar til uppbyggingar stofnsins þegar kerfinu var komið á. Sú spurning er fullkomlega eðlileg á hverjum tíma, og hún sækir æ meira á eftir því sem árunum fjölgar í aflamarkskerfinu, hvort árangurinn af kerfinu sé ásættanlegur. Hefur mistekist að byggja þorskstofninn nægjanlega upp á þessum áratugum eða er það ásættanlegur árangur að stofninn gefi ekki meira af sér en 200-250 þúsund tonna þorskafla árlega? Umræða um þessa þróun er eðlileg og í reynd nauðsynleg.“

Deila: