Boða 43% hækkun á fiskeldisgjaldi

Deila:

Í fjárlagafrumvarpi fyrir 2023 er boðuð 43% hækkun á gjaldi vegna fiskeldis, sem innheimt er af þeim sem hafa leyfi til sjókvíaeldis við Ísland. Greiða skal 5% í stað 3,5% af  meðaltali alþjóðlegs markaðsverðs á atlantshafslaxi (frjóum eldislaxi) á almanaksárinu þegar verð er 4,8 evrur á kílógramm eða hærra. Almenn hækkun gjaldstofna í fjárlagafrumvarpinu er 7,7%.

Í gildandi lögum er gjaldið 2% þegar meðalverðið er 4,3 evrur að 4,8 evrum og 0,5% af meðalverði undir 4,3 evrum á hvert kg. Ekki kemur fram í skýringum með frumvarpinu hvort breyting verði einnig á lægri gjaldstigunum. Meðalverðið er hins vegar langt yfir 4,8 evrum svo búast má við að greitt verði 5% gjald af öllum slátruðum fiski á næsta ári.

Verðið er um þessar mundir um 9 evrum á kg og búist er við því að meðalverðið yfir þetta ár verði 8 evrur. Gangi það eftir er fullt gjald 56 kr/kg og innheimt verður 32 kr/kg af slátruðum eldislaxi.

Gjaldið er innheimt í áföngum og verður á næsta ári 4/7 af fullu gjaldi. Fullt gjald verður innheimt frá og með 2026.

Sérregla gildir fyrir fjárhæð gjalds á hvert kílógramm af slátruðum ófrjóum laxi og laxi sem alinn er í sjó með lokuðum eldisbúnaði. Þá er gjaldið helmingur af gjaldi fyrir atlandshafslaxinn.

Spá Matvælastofnunar er að 50.000 tonnum verði slátrað á þessu ári. Það myndi gefa 1.600 m.kr. í fiskeldisgjald. Ekki liggur fyrir sprá fyrir framleiðslu árins 2023.

Miðað verði áfram við að 1/3 af gjaldinu fari sem framlag til Fiskeldissjóðs sem er í samræmi við það sem kemur fram í greinargerð með gildandi lögum segir í skýringum fjármálaráðuneytisins. Því fé er úthlutað til sveitarfélaga þar sem fiskeldi er stundað.

Fjórðungsþing Vestfirðinga vill að fiskeldisgjald verði beinn tekjustofn sveitarfélaga til að tryggja hraðari uppbyggingu innviða fiskeldissveitarfélaga.
Frétt og mynd af bb.is

 

Deila: