Vaxandi útflutningur frá Færeyjum

Deila:

Útflutningur á sjávarafurðum frá Færeyjum hefur gengið vel á fyrstu sjö mánuðum ársins. Verðmæti útflutningsins er 125 milljarðar íslenskra króna. Þetta er aukning um 30 milljarða króna, eða 32% miðað við sama tíma í fyrra. Magnið hefur þó heldur dregist saman og er nú 266.138 tonn, sem er samdráttur um 25.328 tonn.

Laxinn er undirstaða útflutningsins mælt í verðmætum og heldur það áfram að aukast. Verðmætið nú, eftir sjö mánuði er 56 milljarðar íslenskra króna. Það er aukning um 13 milljarða eða 30%. Verð á laxinum er hátt um þessar mundir, því þrátt fyrir samdrátt um 5.000 tonn, 12%, er verðmætið það sama og á sama tíma í fyrra.

Útflutningur á makríl hefur aukist verulega, meðal annars vegna þess að kvótinn var tekinn seinna í fyrra en vaninn er. Verðmætið nú er 8,9 milljarðar króna, sem er aukning um 84%. Magnið er 41.883 tonn, sem er vöxtur um 13.207 tonn eða 46%

Vel hefur gengið að selja þorsk og ýsu. Útflutningsverðmæti nú hefur hækkað um 4 milljarða, eða 42% í þorski og um 1 milljarða eða 63% fyrir ýsu. Í magni magni mælt hefur útflutningur þessara tegunda vaxið um 15% og 14%.

 

Deila: