Hefur áhyggjur af plastmengun í hafinu

Deila:

„Þessi sýning er mikilvægt tækifæri fyrir fyrirtæki að sýna sínar vörur og þau verkefni sem þau vinna að. Það er alveg skýrt hve mikilvæg nýsköpun er í því að auka verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi. Útflutningur á þekkingu og tækni er að verða sífellt vaxandi hluti af okkar útflutningi.“

Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra við opnun sjávarútvegssýningarinnar Sjávarútvegur 2022 í gær. Hún vék síðan að umhverfismálum:

„Það er mjög margt spennandi sem er að gerast í tengslum við umhverfisvænni veiðarfæri. Ný skýrsla Hafrannsóknastofnunar um plastmengun á hafsbotni sýni svart á hvítu hve mikilvægt er að finna efni í veiðarfæri sem uppfylla skilyrði sem sjómenn gera til þeirra en jafnframt eyðast í náttúrunni á tímaskala sem er ekki jarðsögulegur tími. Eins og er, er líklegt að það plast sem hefur safnast saman á hafsbotni síðustu áratugi verði þar í milljónir ára. Við sjáum að þetta plast safnast upp í lífkerfinu, þannig að það finnst í kræklingi, þorski og ufsa. Við viljum auðvitað ekki þurfa að merkja fisk með aðvörun á borð við „gæti innihaldið plast“ í framtíðinni. Ég trúi því raunar að á næstu árum muni íslensk nýsköpun skapa enn meiri verðmæti fyrir þjóðarbúið, enn meira virði fyrir útgerðina og verða leiðandi á heimsvísu.

Til að svo megi verða þarf með öllum ráðum að draga úr umhverfis spori svo við göngum ekki á auðlindina, lækka orkunotkun við togveiðar, auka nýtingu úr hliðarafurðum og svo mætti lengi telja. Við munum ekki leysa stærstu viðfangsefni nútímans, umhverfismáli, nema með fjárfestingu í nýsköpun. Þar búum við vel, því hér á landi er mikið og gott samstarf milli aðila í nýsköpun og háskólum. Þessi suðupottur hugmynda hefur skilað okkur miklu virði nú þegar og mun gera um ókomna tíð. Ég hef trú á því að þeir innviðir sem eru til staðar hér á landi varðandi rekjanleika afurða og eftirlit með umhverfi og gæðum, muni koma til með að auka enn frekar orðspor íslenskra sjávarafurða á komandi árum. Við munum geta boðið upp á vörur sem skora hátt í þeim gæðaflokki sem á eftir að skipta mestu máli á næstu árum, kolefnissporinu.“

Deila: