Kynnir umhverfisvæna toghlera úr endurunnu plasti

Deila:

Toghleraframleiðandinn Polar kynnir nú á sýningunni Sjávarútvegur 2022 nýja gerð toghlera úr endurunnu plasti. Þeir eru kynntir erlendis undir heitinu Mar Eco, Marine Ecological Soloutions. Kostir hleranna eru miklir. Þeir eru náttúruvænir, því eru ekki aðeins úr endurunnu plasti, heldur má endurvinna hlerana líka að notkun lokinni. Þá eru hlerarnir léttari í drætti en sambærilegur hlerar úr járni og hafa lítil sem engin áhrif á sjávarbotninn.

Atli Jósafatsson hefur um árabil framleitt toghlera og þessir nýju hlerar eru viðbót við þá framleiðslu. Fyrirtækið hefur framleitt 15 pör af plasthlerunum. „Stór hluti af þessum hlerum er framleiddur úr endurunnum fiskinetum. Við höfum sent þessa hlera til prufu víða, erum með tvö pör í Vestmannaeyjum, þrjú pör á Englandi og fjögur pör á Írlandi, tvö í Skotlandi og tvö í Frakklandi og tvö pör á Spáni,“ segir Atli í samtali við Auðlindina.

Hann segir að öll þessi pör hafi verið send til prufu, því enginn segist vilja panta par af plasthlerum fyrr en komin sé reynsla á þá. Það sé bara eðlileg byrjun og fyrirtækið hafi fengið þróunarstyrk frá Tækniþróunarsjóði og þeir peningar fari í þessa þróun og hönnun og geri það kleift að senda hlerana út til prufu.

„Við erum bara í nokkuð góðum málum. Þar sem hlerarnir hafa verið prófaðir, koma þeir mjög vel út. Flestir bátarnir eru með einhverskonar gamla járnhlera. Það er bátur á Suður-Englandi sem hefur verið að prufa hlerana. Hann var að nota gamla V-hlera. Þar eru þeir að sjá yfir 20% minni olíunotkun. Hjá öðrum bát á sömu slóðum, sem var með aðra tegund af járnhlerum, þar er olíunotkunin 25% minni.

Hlerarnir eru léttir í drætti, en það er ekki bara vegna þess að plastið er léttara en járnið, heldur líka vegna straumflæðihönnunar, sem hefur verið þróuð í tölvuhermum. Hlerinn er dreginn í mjög litlu skurðarhorni, undir 20 gráðum, sem dregur verulega úr viðnáminu. Við höfum hlerana aðeins stærri til að geta verið með þá í þessu litla skurðarhorni. Þannig verður ávinningurinn meiri vegna minni olíunotkunar,“ segir Atli.

Hann nefnir einnig að vegna þessarar hönnunar sé snerting við botninn lítil sem engin. Meðal annars þess vegna séu hlerarnir umhverfisvænir, auk olíusparnaðar og að þér séu úr endurunni plasti og þá megi síðan endurvinna að notkun lokinni. Þá geti þeir annaðhvort orðið hlerar aftur, eða borð og stólar eða nánast hvað sem er. Þannig megi segja að ávinningurinn sér fjórfaldur.
Á myndinni er Atli Jósafatsson að ræða við breska blaðamanninn Quentin Bates.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

Deila: