Áhöfnin veðurteppt

Deila:

Ísfisktogarinn Gullver NS hefur að undanförnu legið í Hafnarfjarðarhöfn á meðan ýmsu viðhaldi hefur verið sinnt í skipinu. Meðal annars hefur aðalvélin verið tekin upp og kælikerfi í lestum endurnýjað. Framkvæmdum við skipið lauk fyrir helgina og var áformað að halda til veiða í gær en óveðrið sem gekk yfir landið setti strik í reikninginn. Áhöfnin var fyrir austan og ekkert var flogið. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að nú sé beðið eftir áhöfninni og vonast hann til að flogið verði síðar í dag. „Um leið og áhöfnin kemur verður haldið beint til veiða, skipið er klárt,“ segir Steinþór í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Ljósm. Þorgeir Baldursson

 

Deila: