Eltak kynnir tímamótavog frá Ohaus

Deila:

„Eltak hefur nú starfað í rúmlega 30 ár og við höfum tekið þátt í sjávarútvegssýningum á Íslandi alveg síðan þær byrjuðu. Þessi sýning er að koma mjög vel út. Ég er mjög ánægður. Það er gríðarlega mikið af góðum viðskiptavinum úr sjávarútveginum hér.  Hér er fólk, sem er að vinna í fiskvinnslu og útgerð. Niðurstaðan er sú að við erum mjög ánægðir með þessa sýningu,“ sagði Jónas Ágústsson hjá Eltaki, þegar auðslindin ræddi við hann á sýningunni Sjávarútvegur 2022.

Jónas Ágústsson

„Við erum fyrst og fremst að leggja áherslu á nýja vigt sem er þróuð í samvinnu við Eltak. Það er vigt sem kemur frá evrópsku fyrirtæki sem heitir Ohaus. Upphaflega er það amerískt fyrirtæki, orðið 120 ára gamalt vörumerki í dag. Við höfum verið umboðsmenn þeirra hér á Íslandi síðustu átta árin. Þeir bönkuðu upp á hjá okkur á sínum tíma og vildu komast inn.

Eltak er, eins og segir í slagorðinu, vogir eru okkar fag. Við erum vigtarverslun sem selur allar vogir, hvort sem þú þarft að vigta títuprjón eða trukk. Við erum ekki með eitt vörumerki, við eru með sex vörumerki og það er viðskiptavinurinn sem velur hvaða vörumerki hann vill, ekki við.

Við höfum átt gott samstarf við Ohaus og nýjasta afurðin er þessi sem nefnist Defender 6.000. Hún er hönnuð í samstarfi við Eltak og við erum búnir að vera með eintök til prufu í eitt og hálft ár og við höfum komið til baka skilaboðum tillögum um breytingar og nú er komin endanleg útgáfa, sem við erum að frumsýna hér. Hún fær gríðarlega góðar viðtökur. Það eru margar nýjungar í henni. Hún er með hágæða vatnsvörn samkvæmt Evrópustaðli, hæstu vatnsvörn sem til er og því má háþrýstiþvo hana. Hún er með snertilaus samskipti. Það þarf ekki að ýta á taka, þú setur bara höndina upp að voginni og hún skilur það þú vilt að hún geri. Hún er með nýrri hönnun á vogarpallinum, sem ekki hefur sést áður hjá neinum vogarframleiðanda. Hún er með opið kerfi, þannig að hvaða prentari eða tölva getur tengst henni, hvort sem það er ethernet, blue tooth, wifi eða hvað þetta heitir allt saman. Það geta allir tengt sinn búnað við vogina. Það er nýtt. Flestir vogaframleiðendur eru með lokuð kerfi, það er að segja það getur eingöngu tengst þeirra hugbúnaði. Hérna getur þú tengst hvaða kerfi sem er eða smíðað þinn eigin hugbúnað,“ segir Jónas Ágústsson.

Deila: