Vilja sjálfstæðar fiskeldisrannsóknir við Háskólasetur Vestfjarða

Deila:

Fram er komin tillaga til þingsályktunar á Alþingi um sjálfstæðar fiskeldisrannsóknir á vegum Háskólaseturs Vestfjarða. Lagt er til að að komið verði á fót stöðu fiskeldisfræðings við Háskólasetur Vestfjarða. Fjármagn verði tryggt fyrir stöðunni og fyrir sjálfstæðum rannsóknum í fiskeldisfræðum á vegum setursins.

Það er Eyjólfur Ármannsson, alþingismaður Flokks fólksins sem flytur málið og með honum eru aðrir þingmenn flokksins.

Í greinargerð sem fylgir með tillögunni segir að mikilvægt sé að byggja upp fræðilega þekkingu á fiskeldi á Íslandi og fræðasamfélagið á Vestfjörðum, efla rannsóknir á fiskeldi og tryggja að sú þekking og reynsla sem myndast á svæðinu verði varðveitt og henni miðlað áfram. Einnig er mikilvægt að rannsaka umhverfisáhrif fiskeldis og stuðla að því að fiskeldi fari fram með vistvænum hætti.

„Því er lagt til að koma á fót stöðu fiskeldisfræðings, sem starfi við sjálfstæðar rannsóknir og kennslu. Hans hlutverk væri einnig að taka þátt í og stuðla að faglegri umræðu um fiskeldi á Íslandi. Til að girða fyrir hagsmunaárekstra er mikilvægt að slík staða verði ekki á vegum fiskeldisfyrirtækja, heldur óháð og innan fræðasamfélagsins. Þá er Háskólasetur Vestfjarða besti kosturinn, enda eru yfir 50% af fiskeldisafurðum framleiddar á Vestfjörðum eins og áður segir.“

Við undirbúning þessa máls var leitað álits háskólasetursins. Stjórn setursins fagnaði tillögunni og taldi að staða fiskeldisfræðings passaði vel við stefnu þess um að efla rannsóknir, kennslu og þróun á Vestfjörðum.

Þá er rakið í greinargerðinni íbúaþróun síðustu ára sem hafi snúist við og að fiskeldið leiki þar lykilhlutverk:

„Íbúum fækkaði statt og stöðugt á Vestfjörðum frá upphafi 9. áratugarins þangað til viðsnúningur varð árið 2017. Þennan viðsnúning má rekja til ýmissa þátta, m.a. uppgangs í ferðaþjónustu, en óumdeilt er að fiskeldið spilar þarna lykilhlutverk. Fiskeldi er ört vaxandi atvinnugrein á Vestfjörðum. Í fyrra voru þar framleidd yfir 27 þúsund tonn af eldisfiski, sem er nærri tíu sinnum meira en framleitt var árið 2015. Útflutningsverðmæti eldisafurða nam rúmum 36 milljörðum kr. árið 2021 og hlutdeild Vestfjarða í þeirri verðmætasköpun er yfir 50%.“
Frétt af bb.is

 

Deila: