Mega veiða tíu tonn af karfa í túr

Deila:

,,Við vorum í fyrsta túr eftir slipptökuna og allt virkaði vel. Við byrjuðum í kantinum vestan við Halann og færðum okkur svo norðarlega á Halann og reyndum að forðast gullkarfa eftir fremsta megni. Við vorum með um 120 tonn af fiski í túrnum og þar af vorum við með um 85 tonn af þorski,” segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey AK.

Er rætt var við Eirík á heimasíðu Brims var skipið statt á miðjum Breiðafirði en aflanum í nýliðinni veiðiferð var landað á Grundarfirði. Þaðan var fiskinum ekið til vinnslu í Norðurtanganum í Reykjavík.

,,Við höfum tekið stefnuna aftur á Vestfjarðamið en það ræðst ekki endanlega hvar við byrjum fyrr en eftir að ég er búinn að afla mér frétta um ástandið á helstu fiskimiðum,” segir Eiríkur en eins og fram kemur í inngangi byrjaði hann síðast í kantinum.

,,Það var sæmilegt nudd hjá okkur í kantinum hvað varðar þorskinn. Við færðum okkur svo norðarlega á Halann og reyndum að forðast gullkarfann en staðreyndin er sú að það er enn mikið af karfa á Halanum og dauðadómur fyrir okkur að hætta okkur upp á grunnið. Við vorum mikið að toga á 220 til 260 faðma dýpi og fórum grynnst upp á 160 til 180 faðma dýpi en þrátt fyrir það losnuðum við aldrei við karfann. Við megum veiða 10 tonn af karfa í túr og ég held að frystitogurunum sé skammtað þrjú tonn af karfa á dag og þetta verður því mjög erfitt fiskveiðiár.”

Að sögn Eiríks eru nú allir sótraftar á sjó dregnir til að leita að ufsa en árangurinn hefur ekki verið sérstakur. Heyrst hefur um þokkaleg hol hér og þar en enginn kraftur hefur verið í veiðunum.

,,Ufsi kemur með þorskinum og svo auðvitað karfanum en það er erfitt að ná árangri í ufsaveiðum þegar varla má snerta karfann.”

Akurey var góðan mánuð í slipp í Reykjavík á dögunum. Slipptakan snerist mest um hefðbundna vélarupptekt en Eiríkur segir að fjöldi smærri atriða hafi verið lagfærður í leiðinni.

 

Deila: