Breytingar á hafnalögum í samráðsgátt

Deila:

Innviðaráðuneytið kynnir til umsagnar á samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003. Með frumvarpinu eru lögð til ákvæði til innleiðingar á reglugerð ESB frá 2017 um hafnamál.
Mælt var fyrir sams konar ákvæðum í frumvarpi á 151. löggjafarþingi en frumvarpið náði ekki fram að ganga. Innviðaráðuneytið hefur ákveðið að skipta efni þess frumvarps í tvennt, annars vegar þetta frumvarp sem snýr eingöngu að reglum sem leiða af EES-samningnum, og hins vegar frumvarp sem jafnframt verður lagt fram á 153. löggjafarþingi sem hefur að geyma önnur ákvæði.

Reglugerð (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 128/2019 frá 8. maí 2019. Reglugerðin var sett í því markmiði að stuðla að nútímalegri hafnarþjónustu, skilvirkri notkun hafna og hag-stæðu fjárfestingarumhverfi til að þróa hafnir í samræmi við kröfur varðandi flutninga og vörustjórnun. Með því að bæta aðgengi að hafnarþjónustu, innleiða gagnsæi í fjármálum og kveða á um sjálfstæði hafna er ætlað að gæði og skilvirkni þjónustu við hafnarnotendur muni aukast ásamt því að draga úr kostnaði fyrir flutningsþega og stuðla að eflingu flutninga á stuttum sjóleiðum og betri samþættingu sjóflutninga við aðra flutningsmáta.

Íslensk lög eru þegar að miklu leyti í samræmi við ákvæði reglugerðar (ESB) 2017/352. Þó er þörf á því að gera lagabreytingar til að ákvæði laganna fyllilega til samræmis við ákvæði reglugerðar (ESB) 2017/352. Er fyrirhugað að full innleiðing á ákvæðum gerðarinnar eigi sér síðan stað með reglugerð. Meðal tillagna í frumvarpi þessu eru ákvæði sem veita höfnum heimild til að veita afslætti eða álög eins og 4. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar heimilar. Í Evrópu notast margar hafnir við skrár, sem sem Environmental Ship Index – ESI eða Environmental Port Index – EPI, sem skrá og meta skip með tilliti til þess hve umhverfisvæn skip eru. Eru afslættir eða álög síðan ákvörðuð eftir því skori sem skip fá á þessari skrá. Ráðuneytið mun útfæra nánar þessi viðmið í reglugerð.

 

Deila: