„Aflavísirinn eitt allsherjar bull í fjölda ára“

Deila:

„Það er verið að leiðrétta vitleysu sem aldrei hefði átt að eiga sér stað,“ segir Sævar Birgisson, framkvæmdastjóri Skipasýnar um drög að frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra. Frumvarpið er í samráðsgátt en það varðar heimildir smærri togskipa til veiða innan 12 mílna beltis fiskveiðilandhelginnar. Heimildirnar kveða meðal annars á um hámarkslengd og vélarafl skipa en vélarafl er mælt í reiknuðum aflvísi, margfeldi af hestöflum aðalvélar og þvermáli skrúfu viðkomandi skips.

Með breyttri löggjöf er markmiðið að greiða fyrir orkuskiptum og þá sérstaklega notkun tvíorkuskipa við fiskveiðar. Gildandi lög hafa komið í veg fyrir endurnýjun togbáta, smíði hagkvæmari skipa, sem mega fara upp að þremur til fjórum mílum frá landi.

Í fiskveiðilöggjöfinni er sett stærðartakmörkun á báta til að þeir geti öðlast veiðileyfi með krókaaflamark. Fyrirhuguð lagabreyting hefur það að markmiði að draga úr olíunotkun flotans. Hún heimilar bátum sem nota vistvæna orkugjafa að vera stærri en gildandi lög setja takmörkun um. Bátar með vistvænum orkugjöfum gera kröfu um aukið rými fyrir orkuinnihald; stærri tanka eða rými fyrir rafhlöðu.

Stærri skrúfur hagkvæmari á togveiðum

Systurskipin Breki VE og Páll Pálsson ÍS eru hönnun frá Skipasýn og þau eru
búin skrúfum sem eru fimm metrar í þvermál. Hér er Breki VE í smíðum

Sævar hjá Skipasýn býr að áratuga reynslu þegar kemur að hönnun fiskiskipa og hefur lengi talað fyrir hagkvæmni stærri skrúfa fyrir togbáta. Hann segir orkusparnað stærri skrúfa ótvíræðan þegar kemur að skipi á togveiðum. „Það er miklu árangursríkara að hraða upp miklu magni af vatni lítið í stað þess að hraða litlu vatni mikið. Skipsskrúfa er ekkert öðruvísi en vængur á vindmyllu eða flugvél. Besti vængurinn er óendanlega þunnur og óendanlega langur,“ útskýrir hann.

Hann segir að ekki sé nokkur leið að hanna hagkvæman bát inn í aflvísinn; hvorki lítinn né stóran. Hann bendir á að margfeldi af hestaflafjölda aðalvélar og þvermáli skrúfu fyrir 42 metra togara megi ekki vera meira en 2.500. „Menn setja varla minni aðalvél í 42 metra togskip en 1.500 hestöfl, bara til að drífa spilbúnað, framleiða ís eða krapa, kæla lestar og svo framvegis. Slíkur búnaður þarf fleiri hundruð hestöfl. Með 1.500 hestafla vél má skrúfan vera 1,7 metri í þvermál sé miðað við aflvísisregluna. Eins komma sjö metra skrúfa er bara trilluskrúfa sem hefði afleita nýtni á togbát,“ segir hann.

Hann bendir á að þvermál skrúfunnar sé algjört lykilatriði þegar kemur að afli skips á togveiðum. „Mjög stór hluti okkar togaraflota er með svona 20-30 prósent nýtni á skrúfunni. Öflugustu uppsjávarskipin eru með 15- 20% nýtni á skrúfunni. Við höfum verið að mæla fjölda kílóa á hvert hestafl í togspyrnu. Skástu skipin eru með 15 kg í togspyrnu á hvert hestafl. Það væri mjög auðvelt að koma þeim í 20 til 25 kíló ef þvermál skrúfunnar væri meira.“

 Á skjön áratugum saman

Sævar segir að stjórnvöld hafi ekki geta staðið lengur á gildandi reglum. Þær hafi verið á skjön áratugum saman og til trafala við hönnun skipa. Hann dregur ekkert undan. „Þetta er satt best að segja búið að vera eitt allsherjar bull í fjölda ára. Það setur enginn minni vél í 29 metra togbát en 700-900 hestöfl. Þá endar þú með mjög litla og óhagkvæma skrúfu,“ útskýrir hann.

Hann segir að lagasetningin muni breyta miklu þegar kemur að hönnun skipa til veiða við Íslandsstrendur. „Nú getum við allt í einu farið að hanna hagkvæma báta inn í þessar reglur. Ímyndaðu þér ruglið; menn hafa verið að smíða tveggja skrúfu báta með tilheyrandi kostnaði, til að dansa í kring um þessar reglur. Menn hafa meira að segja verið að taka skrúfuhringinn af skrúfunni, til að falla réttu megin í kerfinu jafnvel þó hringurinn spari 20 til 30 prósent orkunnar.“

Tíma mun taka að sögn Sævars að vinda ofan af því fyrirkomulagi sem útgerðir og skipasmiðir hafi þurft að fara eftir undanfarin ár og áratugi. Sævar fagnar hins vegar breytingunni og segir hana löngu tímabæra.

Orkuskipti í skrefum

Spurður um orkuskipti fiskiskipa segir Sævar að engin ein augljós lausn sé í farvatninu. Stundum sé rætt um ammoníak en stundum eitthvað annað. Þróunin sé mikil og hröð. Hann segir að í sínum huga sé ljóst að orkuskiptin muni verða í skrefum. „Í dag sjáum við möguleika á að vera með vélar sem ganga að helmingi fyrir dísilolíu og hinum helmingi fyrir metanóli og nokkrir framleiðendur stefna á 75% metanól á móti olíu.“

Svævar segir að gallinn við metanólið sé að útblásturinn sé ekki hreinn. „Við værum hins vegar að endurnýta mengun, sem er vissulega áfangi,“ segir Sævar og bindur vonir við að einn daginn verði hægt að nýta hreina orkugjafa; vetni eða rafmagn.

Á efri myndinni eru feðgarnir Birgir Sævarsson (t.v.) og Sævar Birgisson, við togarann Baldvin Njálsson, sem Skipasýn hannaði fyrir Nesfisk í Garði. Aðalvélin í skipinu er 4.000 hestöfl og skrúfan engin smásmíði; 5 metrar í þvermál.

Þetta viðtal birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri, sem Ritform gefur út. Blaðinu er dreift til fyrirtækja um allt land. Það má einni lesa á slóðinni https://ritform.is/

 

Deila: