Eimskip stígur fleiri græn skref í flutningum

Deila:

Eimskip hefur fjárfest í tveimur 15 tonna rafknúnum vöruflutningabílum frá Volvo hjá Velti, atvinnutækjasviði Brimborgar, en bílarnir verða afhentir í mars á næsta ári.

„Eimskip hefur mikinn metnað í að vera framarlega þegar horft er til orkuskipta og hefur skýr markmið um að draga úr kolefnisútblæstri. Félagið hefur áður fjárfest í flutningabílum sem eru knúnir af grænni orku meðal annars metan og rafmagnsbíla. Félagið fagnar þeirri þróun sem hefur átt sér stað á rafknúnum flutningabílum og fjárfestir nú í tveimur 18 bretta flutningabílum sem ætlaðir eru til vörudreifingar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í frétt frá Eimskipi.

„Þegar Veltir kynnti fyrir okkur að Volvo Trucks væru að hefja fjöldaframleiðslu rafknúinna þungaflutningabíla þá vorum við fljót að grípa boltann enda er Eimskip með skýr markmið í loftlagsmálum. Bílarnir stuðla ekki eingöngu að minni losun koltvísýrings heldur einnig minnkun annarrar mengunar eins og  köfnunarefnisoxíðs (NOx) og brennisteinsoxíðs (SOx). Þessi ökutæki uppfylla ekki bara fjölbreyttar þarfir fyrirtækisins heldur líka auknar kröfur viðskiptavina í sjálfbærnimálum. Þá eru bílarnir ekki síður vel búnir til matvælaflutninga en flutningakerfi Eimskips gegnir lykilhlutverki í flutningum matvæla. Það er gríðarlega hröð þróun í umhverfisvænni flutningalausnum. Eimskip er að taka fullan þátt og það eru mjög spennandi tímar framundan,“ segir Böðvar Örn Kristinsson framkvæmdarstjóri innanlandssviðs. 

 

 

Deila: