Haustrallið hafið

Deila:

Stofnmæling botnfiska að haustlagi (SMH) hófst 1. október síðastliðinn og stendur yfir næstu vikurnar. Auk rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar HF-200 taka tveir togarar þátt í verkefninu; Breki VE-61 og Múlaberg SI-22.

Togað verður á rúmlega 370 stöðvum umhverfis landið og rs. Árni Friðriksson hefur einnig varið tveimur sólarhringum á Dohrnbanka til þorskmerkinga. Verkefnið sem er einnig nefnt haustrall hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti ár hvert síðan 1996. Helsta markmið verkefnisins er að styrkja mat á stofnstærð helstu botnlægra nytjastofna á Íslandsmiðum sem Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum (SMB) nær yfir og fer fram síðla vetrar á hverju ári. SMH er þó skipulagt með sérstakri áherslu á lífshætti og stofnstærð grálúðu og djúpkarfa og auk annarra djúpfiska en SMB nær ekki yfir útbreiðslusvæði þeirra tegunda. Í gegnum tíðina hefur söfnun í SMH orðið veigamikill þáttur í langtímavöktun lífríkis á íslensku hafsvæði.

Svæðinu er skipt í grunn- og djúpslóð og er togað niður á allt að 1300 m dýpi. Múlaberg sinnir sýnatöku á grunnslóð en Breki og Árni á djúpslóð.

Um borð á skipunum þremur eru 15 vísindamenn auk áhafna. Fylgjast má með ferðum skipanna á https://skip.hafro.is/ og þar sjást einnig togstöðvar í haustralli.

Handbók verkefnisins er aðgengileg á vef Hafrannsóknastofnunar: Handbók um stofnmælingu botnfiska að haustlagi. KV 2022-15.

 

Deila: