Önglar í milljarðatali og milljónir kílómetra af línum

Deila:

Ef allar tegundir af fiskilínum og -netum sem verða eftir í sjónum á ári hverju væru bundnar saman næðu þær 18 sinnum utan um jörðina. Frá þessu er greint í einhverri umfangsmestu rannsókn sem gerð hefur verið á veiðibúnaði sem verður eftir í sjónum á heimsvísu. Frá þessu er greint á ruv.is

Alls er talið að um 25 milljón gildrur séu á hafsbotni víða um heim og 14 milljarðar öngla. Allt getur þetta haft alvarleg áhrif á líf sjávardýra. Næg net eru á hafsbotni til þess að hylja Skotland, segir í rannsókninni.
Rannsóknin var gerð af vísindamönnum í Ástralíu og við háskólann í Tasmaníu.

Tekin voru viðtöl við 451 sjómann í sjö löndum, þar á meðal Íslandi, og þeir spurðir hvers konar búnaði þeir hafi glatað ofan í hafið. Þau gögn voru notuð til viðmiðunar til að meta hversu mikið af veiðarfærum hafi tapast ofan í hafið á heimsvísu.

Niðurstaða þess mats er að um 78 þúsund ferkílómetrar af hringnót og rekneti seú á hafsbotni,  um 215 ferkílómetrar af neti úr botnvörpum og rúmlega 16 milljónir kílómetra af fiskveiðilínum.

Sjómennirnir sem rætt var við voru frá Íslandi, Bandaríkjunum, Marokkó, Indónesíu, Belíse, Perú og Nýja Sjálandi. Löndin voru valin þar sem þau beita flestum aðferðum við fiskveiðar. Smærri skip töpuðu meiri búnaði en þau stærri, og skip sem voru á botnfiskveiðum misstu fleiri net en þau sem voru við uppsjávarveiðar.

 

Deila: