„Taka ætti auðlindaákvæði í stjórnarskrá“

Deila:

„Auðlindanefnd taldi að skýra þyrfti betur umgjörð laga sem snúa að því að fiskstofnarnir séu sameign þjóðarinnar en aflahlutdeild sé úthlutað án tímatakmarkana. Fyrsta skref til að leysa þann vanda taldi auðlindanefnd vera þann að treysta betur lagalegan grundvöll þjóðareignar náttúruauðlinda. Það er afstaða ráðherra að taka ætti auðlindaákvæði upp í stjórnarskrá. Einnig telur ráðherra að í því auðlindaákvæði þurfi að vera skýrt að enginn geti fengið auðlindir í eigu þjóðarinnar til varanlegra afnota eða eignar. Í framhaldi af því þyrfti að útfæra betur í lögum um stjórn fiskveiða til hve langs tíma hægt er að fá afnotarétt af auðlindum í eigu þjóðar. Rétt er að taka fram að auðlindanefnd tilgreindi tvær mismunandi leiðir til þess, hina svokölluðu fyrningarleið annars vegar og veiðigjaldsleið hins vegar.“

Svo segir í skriflegu svari matvælaráðherra Svandísar Svavarsdóttur við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur þingmanni Viðreisnar. Þorbjörg spurði ráðherrann eftirfarandi spurninga:

  1. Er ráðherra sammála áliti auðlindanefndar frá árinu 2000 um að nýtingarréttur aflahlutdeildar eigi að vera tímabundinn eða uppsegjanlegur með tilteknum fyrirvara?
    2.      Er ráðherra sammála áliti auðlindanefndar frá sama ári um að tímabundinn afnotaréttur til veiða skuli aðeins teljast til takmarkaðra eignarréttinda?

Í svari Svandísar segir meðal annars svo: „Í ljósi reynslu af vinnu við endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni á undanförnum árum og áratugum hefur matvælaráðherra ákveðið að beita nýrri nálgun við þær fjölmörgu áskoranir og tækifæri sem eru í sjávarútvegi og snerta samfélagið allt með beinum og óbeinum hætti. Í stað einnar stórrar nefndar hefur ráðherra stofnað til opins og gagnsæs verkefnis fjölmargra aðila sem unnið verður með skipulegum hætti á kjörtímabilinu. Verkefnið nefnist Auðlindin okkar. 1 Samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu, sem ráðherra stýrir, hefur yfirsýn yfir starf fjögurra sjálfstæðra starfshópa um tiltekin verkefni. Starfshóparnir eru Samfélag, Aðgengi, Umgengni og Tækifæri. Markmið matvælaráðherra með þessu starfi er hagkvæm og sjálfbær nýting sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag. Fyrirhugaðar lokaafurðir þessa starfs eru m.a. ný heildarlög um stjórn fiskveiða eða ný lög um auðlindir hafsins og aðrar lagabreytingar, verkefni á sviði orkuskipta, nýsköpunar, hafrannsókna og gagnsæi og kortlagning eignatengsla í sjávarútvegi.
Ráðherra mun ekki taka afstöðu til þess hvernig rétt sé að útfæra þau lög fyrr en samráðsnefndin og starfshóparnir hafa lokið vinnu sinni og sent ráðherra tillögur sínar.“

     

Deila: