Sæbjúgun skapa aukin verðmæti fyrir þjóðarbúið
„Hjá okkur skiptir mestu máli gæði vörunnar og markaðir fyrir hana. Það var aldrei markmið okkar og koma þessu í kvótasetningu og veiða sem mest í þeim tilgangi. Markaðurinn réði sókninni hjá okkur og þess vegna drógum við verulega úr veiðum þegar Covid lamaði markaðinn, en hefðum getað veitt mun meira til auka aflareynslu okkar. Þannig höfum við aldrei hugsað. Við höfum viljað skjóta fleiri stoðum undir sjávarútveginn með því að sækja nýjar tegundir eins og sæbjúgun á ný mið og skapa með því aukin verðmæti fyrir þjóðarbúið. Þegar mest var, skilaði útflutningur á frá Íslandi nærri tveimur milljörðum í gjaldeyristekjur. Þó útflutningur og afli sé í lægð núna, hef ég fulla trú á því að fyrri afköstum verði náð, bæði veiði, vinnslu og útflutningi,“ segir Ólafur Hannesson, framkvæmdastjóri hjá Hafnarnesi-Ver í Þorlákshöfn.
„Núverandi fyrirtæki, Hafnarnes VER var stofnað 2006 við sameiningu á tveimur rótgrónum fyrirtækjum, Hafnarnes og Fiskiðjunni VER, sem bæði áttu farsælan og langan feril í útgerð og vinnslu.
Byrjuðu 2008 í sæbjúgum
„Hjarta fyrirtækisins er og hefur verið vinnsla á saltfiski. Þar slær hjartaði hjá Hannesi föður mínum. Þegar við keyptum Hafnarnes vorum við í humri líka. Á þeim tíma voru þetta tvær megin stoðir undir fyrirtækinu. Við vorum líka í hinu og þessu í smærri mæli, flatfiski og fleiru. 2008 er árið sem við erum að byrja í sæbjúgunum. Við vorum ekki þeir fyrstu. Einn sá fyrsti var Kári Ólafsson, sem er með Reykofninn í Kópavogi núna og faðir hans. Við höfum þraukað allan þennan tíma ásamt Kjartani B. Sigurðssyni skipstjóra sem er með Völ ehf.. Fyrstu árin var þetta bara í tapi í sjálfu sér. Það var ekkert uppúr þessu að hafa, verðin voru bara niðri í kjallara, en þetta skapaði þó vinnu. Það er svona upp út 2015, sjö árum eftir að við byrjuðum að það skapaðist rekstrargrundvöllur fyrir sæbjúgun. Markaðurinn er byrjaður að taka við þessu á viðunandi verði. Áður höfðu komið nokkur högg í markaðinn. Íslensku sæbjúgun voru öll sett undir sama hattinn. Ef einn framleiðandi gerði mistök bitnaði það á öllum. Því miður eru nokkur dæmi um það, en þetta hefur sem betur fer lagast mikið á síðustu árum og allir leggja orðið meiri áherslu á gæði vörunnar.
Það voru aðilar sem voru að selja sæbjúgu, sem þeir höfðu látið fyrsta fyrir sig. Frystingin var ekki næg og bjúgun úldnuðu innan frá. Við vorum að senda út gáma á sama tíma og það var allt í lagi með okkar vöru, en kaupandinn beið með greiðslu til okkar. Það tók okkar langan tíma að fá skilning á okkar stöðu og fá greitt fyrir góða vöru. En það blessaðist allt.
Landað daglega
Á þessum tíma, sem staðan er að snúast við, erum við búnir að vera það lengi á markaðnum að okkar kaupendur eru farnir að treysta okkur. Þeir vita að hverju þeir ganga. Við erum með staðlaða vöru sem hefur staðið sig. Það hefur því minni áhrif á okkur en áður ef einhverjir aðrir útflytjendur gera mistök. Við höfum allan tímann gætt þess að passa upp á ferskleikann hjá okkur. Meginstefnan er að bjúgunum sé landað daglega. Segjum sem svo að bjúgum sé landað seinni partinn á mánudegi fyrir austan eða vestan. Þau eru komin til okkar morguninn eftir þegar við hefjum vinnu um sjö leytið og byrjum að heilfrysta þau og seinni partinn, sólarhring eftir að bjúgunum var landað ætti að vera búið að frysta allan aflann. Þegar bjúgun eru komin til okkar er megnið af þeim ennþá lifandi. Þau eru lifandi í körunum og eru því mjög fersk þegar þau fara i frystingu og það sama á við það sem fer í þurrkun. Þessi áhersla á ferskleika hefur skapað okkur gott orðspor og traust á mörkuðunum,“ segir Ólafur.
10.000 krónur kílóið
Heilfrysting á sæbjúgum er algengust en nokkuð af þeim er þurrkað. Þá er bjúgun opnuð og slægð og það er töluverð handavinna sem kostar talsvert í launum. Þau eru svo þurrkuð þar til þau eru orðin eins og viður, mjög hörð. Þetta er tiltölulega dýr vara í framleiðslu, sem fyrirtækið selur í heildsölu í 10 kílóa kössum. Verð á kíló eru um 10.000 krónur. Til að fá eitt kíló af þurrkuðum sæbjúgum þarf um 20 kíló af bjúgum upp úr sjó. Það er svona 5% nýting. „Þetta hefur verið svolítið ferli hjá okkur. Þetta er viðkvæm vara og nokkuð vandmeðfarin en eftir að við náðum tökum á þessu hefur bara gengið nokkuð vel. Þegar við vorum að selja sem mest af þurrkuðum bjúgum voru það um 50 tonn yfir árið. Það eru þúsund tonn upp úr sjó. Verðmæta aukningin er umtalsverð við að fullvinna bjúgun.“
Covid lokaði öllu
En svo kemur Covid og þá breytist allt. Það var mikið selt af þurrkuðum bjúgum hér á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum og þá voru það kínverski ferðamenn sem voru að kaupa þau og taka með sér heim. „Við vorum líka að selja mikið til Kína, en eftir að Covid skall á lokaðist eiginlega allt. Megin salan á þurrkuðum bjúgum til Kína er um kínversku áramótin, sem eru í febrúar. Þeir eru þá að gefa hvorum öðrum þurrkuð bjúgu sem í þeirra huga eru ávísun á góða heilsu. Þau er meðal annars gefin í tækifærisgjafir sem táknræn gjöf um heilsu. Þetta er ekki bara gjöf heldur bætir það heilsuna líka. Þetta er líka falleg gjöf þar sem bjúgun taka á á sig fallegan svarta lit að utan og appelsínugulan að innan við þurrkun. Covid drap þann markað alveg í bili. Á síðasta ári og því sem lokið er af þessu ári erum við búnir að vera á botninum, þegar kemur að sæbjúgunum. Markaðir hrundu bæði fyrir þurrkuð bjúgu og heilfryst. Við höfum því verið með birgðir af hvorutveggja og því veiddum við ekki allt sem við gátum veitt í fyrra. Við látum markaðinn ráða ferðinni í veiðunum. Það er engin skynsemi að vera að veiða ef sala afurðanna er ekki klár.
Hafnarnes-Ver með mesta hlutdeild
Nú erum við að heilfrysta megnið að því sem er að koma í gegn en stefnum svo á þurrkunina, auka vinnsluvirðið og skilja eftir meiri verðmæti hér heima. Við viljum hafa fólk í vinnu til að þurrka bjúgun við viljum skila meira til samfélagsins. Það er langtímaverkefni hjá okkur núna og á næstu árum.“
Fiskistofa hefur birt viðmiðun um hlutdeildir útgerða í sæbjúgnaveiðum miðað við aflareynslu síðustu ára. Ákveðið hefur verið að setja veiðina í aflahlutdeildarkerfið, kvóta. Hafnarnes-Ver er þar efst á blaði. Ólafur segir að enn sé ekki búið að úthluta aflahlutdeild, en eins og útlitið sé nú, sé fyrirtækið með um 39% vestanlands og austan lands með um 31%. „Svo erum við í samvinnu við aðra aðila þannig að við verðum með í vinnslu um 50 til 55% þess afla sem á land kemur. Við erum með bátana Friðrik Sigurðsson ÁR, Þrist ÁR og Jóhönnu ÁR, sem alir hafa verið á sæbjúgum á mismunandi tíma.
Þegar við vorum að veiða sem mest, vorum við með tvo báta. Friðrik og Þristinn og svo vorum við að kaupa af Sæfara ÁR frá Þorlákshöfn og Ebba, sem er gerður út frá Akranesi. Þegar mest var verið að veiða um 6.000 tonn af sæbjúgum við Ísland og engar takmarkanir á veiðunum. Af því vorum við að vinna tæplega 4.000 tonn. Við veiddum í samræmi við vinnslugetu og markaði og stoppuðum stundum báta í góðri veiði, f útlit var fyrir að vinnslan réði ekki við magnið með góðu móti. Það var aldrei nein hugsun að ná sem mestri veiðireynslu. Það sem gerist síðan er að stjórnvöld ákveða, án þess að vera með nokkur vísindaleg rök fyrir því, að það sé verið að veiða of mikið af sæbjúgum við landið. Sjávarútvegsráðuneytið ákveður í samráði við Hafró að skera veiðimagnið úr 6.000 tonnum niður í rúmlega 2.000 tonn. Þessi ákvörðun var í raun bara eins og draga tölu upp úr hatti. Engar rannsóknir lágu þar að baki og ekkert samráð haft við okkur sem vorum að stunda veiðarnar og höfðum góða tilfinningu fyrir veiðiþoli stofnsins, sem er í nokkrum hólfum við landið.
Allt hólfaskipt
Eftir að farið var í vegferðina að skerða magnið var hólfunum jafnframt breytt, bætt við nýjum hólfum og önnur stækkuð. Það virðist sem hendingin ein hafi ráðið því hvernig magni var úthlutað í hólfunum. Svæði B á Vestfjörðum var til að mynda margfalt stærra en svæðið sem veitt var á áður, en magnið minnkað úr svona 1.000 – 2.000 tonn á því svæði niður í 100 tonn.
Raunveruleikinn er ekki í takti við þessar ákvarðanir. Við höfum boðist til þess að leggja bát og fjármuni í rannsóknir , en það hefur ekki verið þegið. Við höfum mikla trú á því að staða stofnsins sé góð og mun meiri veiðar en 2.000 tonn muni ekki fara illa með stofninn. Við viljum auðvitað ekki stunda einhverja rányrkju. Það er okkar hagur að nýtingin sé í samræmi við vöxt við gangs stofnsins. Í því liggur okkar framtíð og þess vegna viljum við rannsóknir til byggja á sem hagkvæmasta nýtingu til góðs fyrir alla.
Ákvörðun um svo mikinn niðurskurð skilur okkur sem erum að stunda þessar veiðar og vinnslu eftir í djúpum skít. Við erum með rekstrareiningu sem miðast við mun meira magn og að við getum stundað þetta allt árið. Eins og þetta var orðið gætu veiðiheimildirnar klárast á fyrstur tveimur til þremur mánuðum fiskveiðiársins. Þær útgerðir sem verið hafa að stunda þessar veiðar, neyddumst til að ræða saman um það hvernig bregðast ætti við þessu. Það gengur ekki að vera með alla þessa báta með svona lítið magn. Við komum okkur saman um það í rauninni að „kvótasetja“ okkur sjálfa. Hafró gaf upp ráðgefandi magn, en þeir pössuðu sig á því í ráðuneytinu og Hafró að þetta væri aðeins ráðlegt magn en ekki föst skipting til frambúðar. Ákveðið magn í hverju hólfi og því síðan lokað þegar hámarkinu væri náð.
Þetta verður að gera
Sem dæmi um þetta alltsaman voru sett 50 tonn í hólfs C fyrir vestan, sem þolir margfalt meiri veiði, en lokuðu því svo áður en veiðar hófust á þeim forsendum bátarnir gætu á einum degi veitt þar meira en 100 tonn. Við brugðumst við og lofuðum að taka ekki meira en 50 tonn á svæðinu og skiptum því sjálfir á milli okkar. Þá opnuðu þeir hólfið aftur og við stóðum við okkar loforð. Þannig gerðum við svo í framhaldinu í öðrum hólfum. Það gerði það að verkum að Hafnarnes-Ver þurfti meðal annars að minnka hlutdeild sína í veiðunum og niðurstaðan var sú að allir urði jafnósáttir við það magn eða hlutfall sem þeir hafa. Allir lögðu sitt að mörkum til að tryggja að veiðarnar færu ekki yfir sett mark. Við gátum þá verið með einn bát hjá okkur í stað tveggja og aðrir drógu saman líka þannig gerðum við þetta sjálfir í stað þess að fara í „olympískar“ veiðar og kapp um aflareynslu. Við vorum ekki að stefna að kvótasetningu, en vegna breyttra aðstæðna er það orðið óhjákvæmilegt. Við erum ekkert ánægðir með þetta, en þetta verður að gera.“
Óskiljanlegar ákvarðanir
Aflahámarkið var komið niður í 2.100 tonn, en hefur verið að hækka og er nú á nýju fiskveiðiári komið í 2.600 tonn. Ólafur segist halda að það sé vegna þess að Hafró sé farið að átta sig á því að miklu meiri möguleikar séu í veiðunum, en þeir töldu að væri. Þó séu óskiljanlegir ákvarðanir í gangi enn. Þeir séu að auka við Aðalvíkurhólfið, en ekkert í B hólfinu sem er áfram með 100 tonn og í hólfi C sé verið að lækka heimildirnar. Þetta virðist vera ákvarðanir sem teknar séu út í loftið. Það þurfi meiri rannsóknir og samráð við útgerðirnar til meta veiðiþolið í hverju hólfi. Það vanti að setja fjármagn í rannsóknir á sæbjúgnaveiðum og í ljósi þess að ríkið sé þegar búið að hafa hundruð milljóna króna í tekjur vegna veiða og vinnslu á sæbjúgum í gegnum skatta og önnur gjöld, sé það skrítið.
Um framhaldið segir Ólafur að enn sé ekki búið að gefa út endanlega útlistun á stjórnun veiðanna. Aflaheimildunum verði skipt í tvo landshluta eins og áður, hvor með sína hlutdeild og heimildum svo skipt milli hólfa innan hvors landshluta. Líklega verði niðurstaðan svo þannig að hver útgerð fái sitt hlutfall í prósentum í samræmi við aflahlutdeild í hverju hólfi fyrir sig. „Við erum til dæmis með rúmlega 30% fyrir austan og ættum því að fá 30% af því sem veiða má í hverju hólfi og á sama hátt 39% fyrir vestan. Svo geta útgerðir skipt á milli sín á milli hólfa eftir , sem hentar hverju sinni. Þar mána tvo aðila, sem hafa verið mjög staðbundnir.
Veiðiskipti milli hólfa
Það eru Eymar sem er með Ebba á Akranesi. Hann hefur verið mest á Faxaflóanum. Fyrir hann væri mögulegur hagur að því að skipta við aðra báta sem eiga heimildir á Flóanum og láta frá sér heimildir við Vestfirðina. Einar, sem er með Eyjan fyrir austan, hefur alltaf verið í norðurhólfinu. Hann er með svona 10-11% hlut í öllum hólfunum, en það gæti verið gott fyrir hann að skipta út heimildum í mið-og suðurhólfi fyrir heimildir í norðurhólfi. Fyrir okkur sem höfum verið við veiðar á öllum svæðunum kemur alveg til greina að fara í svona veiðiskipti. Okkur finnst mikilvægt að reyna að gefa öllum kost á að dafna innan þessa kerfis. Við erum á botninum núna hvað varðar veiðiheimildir og markaði en ég hef fulla trú á því að hvort tveggja lagist. Veiðiheimildir verðir auknar og markaðir takið við sér að nýju.“
Gríðarleg verðmæti falin í landinu
Í heiminum er að finna yfir þúsund tegundir af sæbjúgum. Þau íslensku er neðarlega á gæðalistanum og stundum kölluð verkamannabjúgu. Dýrustu bjúgun eru japönsk með löngum göddum á hliðunum. Þau íslensku eru frekar slétt í áferð. Það eru gaddarnir sem stýra mikið til verðgildi bjúgnanna. Verðmunurinn getir verið alveg óheyrilegur, þegar kemur að þeim dýrustu og ódýrustu. Svo er allt þarna á milli. „Okkar verkefni til langs tíma er að koma íslensku bjúgunum ofar á verðlistann. Við höfum gríðarleg verðmæti falin í landinu okkar. Ísland hefur á sér mjög jákvæða mynd sakir hreinleikans og má til dæmis nefna hreina, tæra vatnið, sem kemur að framleiðslunni á mörgum stigum. Það tryggir öryggi framleiðslunnar, en matvælaöryggi er farið að skipta miklu um allan heim, eins og í Kína sem er stærsti endanlega markaðurinn. Ísland verður sífellt þekktara í Kína. Svo er Ísland þekkt fyrir ómengað haf og ábyrga fiskveiðistjórnun. Allt hjálpar þetta til,“ segir Ólafur.
Rennur eins sleði á botninum
„Sumir hafa talað illa um veiðar sæbjúgum og telja að plógurinn skemmi botninn og lífríki hans. Nafnið plógur hræðir marga en við teljum að þetta sé rangnefni , sæbjúgnavarpa væri til dæmis gott. Það er eitt af verkefnum okkar nú er að breyta nafninu á plógnum. Þetta plægir nefnilega ekkert. Þetta er biti sem er á hjólum og aftan bitanum koma keðjur sem eru dregnar eftir botninum. Þetta er svipað og þegar verið er að slóðadraga tún. Þannig er þetta dregið eftir botninum, rennur eftir honum og bjúgum skoppa upp og fara í netið sem fylgir á eftir. Þetta skemmir ekki botninn. Þetta plægir ekki neitt og skemmir ekki neitt. Það er búið að sýna það með myndatökum neðansjávar. Okkar verkefni framundan er að leiðrétta ranghugmyndir um sæbjúgnaveiðar. Auðvitað vita fæstir Íslendingar nokkuð um sæbjúgu, þó þeim fari fjölgandi. Það er því ekki gott að ranghugmyndir ráði þar ferðinni,“ segir Ólafur.
Bragðið minnir á bláskel
Hvernig borða menn sæbjúgu? Þau eru í boði bæði fersk og þurrkuð. Ólafur segist hafa borðað sæbjúgu Í nokkur skipti.meðal annars í súpu og í blönduðum rétti eins og með kjúklingi svipað og kung pao kjúklingarétturinn .að sé hinsvegar allur gangur á því hvernig fólk borði sæbjúgu. Súpurnar séu þó algengastar og kássur. Þetta sé dýr vara eftir þurrkun og í Kína geta sæbjúgnasúpur verið nokkuð dýrar. Stundum súpur bæði með sæbjúgum og hákarlauggum, en hvort tveggja hafi töluverða heilsufarslega þýðingu. Annars minni bragðið af sæbjúgunum að nokkru leyti á bláskel, þetta sjávarbragð sem flestir þekkja. Það er nokkurra daga ferli að bleyta þurrkuð sæbjúgu upp. Í það fari nokkrir dagar af fá vatnið í holdið aftur ferlið við þurrkunina gefi ákveðið viðbótar bragð.
Viðtal þetta birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri, sem Ritform gefur út. Blaðinu er dreift til fyrirtækja um allt land, en blaðið má nálagst á heimasíðu útgáfunnar, https://ritform.is/