„Til að kóróna vitleysuna“

Deila:

Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, ræddi fiskveiðistjórnun og ráðleggingar fiskifræðinga um hámarksafla á aðalfundi landssambandsins í lok síðustu viku. Arthur var þar endurkjörinn formaður LS án mótframboðs. Arthur var ekki sáttur við stjórnun fiskveiða og fer  hluti af setningarræðu hans hér á eftir:

„Árið 1975, tveimur árum áður en fullnaðarsigur vannst í þorskastríðunum gerðust þau tíðindi að Hafrannsóknastofnun gaf út sína frægustu skýrslu til dagsins í dag, hina svokölluðu „Svörtu skýrslu“.  Það er athyglisvert að þessi skýrsla er síður en svo auðfundin á hinu alvitra interneti. Sá sem hér talar hefur bara fundið hana á einum stað – þ.e. á tímarit.is, þar sem Þjóðviljinn heitinn birti hana í heild sinni.

Í þessari mögnuðu skýrslu er nú ekki töluð vitleysan. Þar er staðhæft að sé Hafró hlýtt myndi jafnstöðuafli þorsks aukast í 450-500 þúsund tonn og heildarbotnfiskaflinn í u.þ.b. 850 þúsund tonn.  Þessi skýrsla Hafró var grunnurinn að fiskveiðistjórnunarkerfinu sem leitt var í lög og reglur í febrúarmánuði 1984.

Síðan þá hefur þessi stofnun að mestu leyti ráðið lögum og lofum yfir þessari tekjulind þjóðarinnar. Með þeim glæsilega árangri að fyrir síðasta fiskveiðiár var ráðgjöfin uppá rúm 200 þúsund tonn af þorski og u.þ.b. 400 þúsund tonn af botnfiski, það er innan við helming þess sem talað var um í svörtu skýrslunni.

Afneitun þessara staðreynda innan sjávarútvegsins er nánast heillandi. Það skiptir engu hvað frá Hafró kemur, öll samtök innan sjávarútvegsins, nema Landssamband smábátaeigenda og Samtök fiskframleiðenda bugta sig og beygja – öll undan sömu rökunum – að verið sé að fylgja bestu vísindalegri þekkingu.

Ég er hrifinn af dæmisögum og myndlíkingum. Hér er smá tilraun til að varpa ljósi á þetta undarlega fyrirbrigði.

Segjum sem svo að ríkisstjórn Íslands hefði gert samning á árinu 1984 um framleiðslu rafbíla við nokkur bílaumboð og bílaverkstæði í landinu. Samningurinn hefði hljóðað uppá að innan örfárra ára yrði drægni bílanna um það bil 850 km – rétt eins og lofað var með 850 þúsund tonna botnfiskaflann. Eftir að hafa framleitt þessa undrabíla í tæp 40 ár væri drægni þeirra um það bil 400 km.

Til að kóróna vitleysuna yrði því haldið blákalt fram að vel hefði til tekist og alveg með ólíkindum að einhverjir setji upp hundshaus vegna þessa. Nákvæmlega þetta er staðan hvað varðar fiskveiðarnar.“

Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar mætti á aðalfund LS og hlýddi á ræðu Arthurs. Þeir eru líklega ekki sammála umm fiskveiðistjórnuna

 

Deila: