Ofveiði í Norðaustur-Atlantshafi

Deila:

Gísli Gíslason svæðisstjóri Marine Stewardship Council í NorðurAtlantshafi ritaði eftirfarandi grein í Morgunblaðið í gær.

Samkvæmt nýlegri skýrslu FAO hefur ofveiddum fiskstofnum í heiminum fjölgað frá því að vera um 10% árið 1974 upp í að vera rúm 35%. Skýrslan skiptir heimshöfunum í 15 hafsvæði og af þeim er fjórðu mestu aukningu ofveiði frá 2017 að finna í Norðaustur-Atlantshafi. Hér voru yfir 27% af nytjastofnum skilgreind ofveidd árið 2019, sem var aukning um tæp 7% frá árinu 2017.

Gísli Gíslason

Uppsjávartegundirnar síld, kolmunni og makríll?

Þetta skýrist einkum af versnandi ástandi atlantshafslax, sílis (tobis), þorsks, lýsings og ýsu. Það er rík ástæða til að hafa áhyggjur af þessari þróun.

Við lok sjöunda áratugar síðustu aldar hrundi, sökum ofveiði, stærsti síldarstofn heims – norsk-íslenska vorgotssíldin. Aðrir stofnar eins og t.d. Norðursjávarsíldin og makríllinn minnkuðu einnig. Allt var þetta afleiðing af margra ára ofveiði. Skilvís fiskveiðistjórnun byggði upp marga stofna. En hver er staðan núna?

ESB, Noregur, Ísland, Rússland, Færeyjar, Grænland og Bretland koma sér ekki saman um skiptingu aflamarks á norsk-íslenskri síld, kolmunna og makríl. Afleiðingin er að árlegt heildaraflamark er viðvarandi tugum prósenta umfram vísindaráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES). Þessir fiskstofnar hafa minnkað á undanförnum árum og nálgast viðmiðunarmörk og fari þeir niður fyrir það munu þeir bætast í flokkinn sem ofveiddir fiskstofnar í skýrslum FAO.

Sjálfbærar fiskveiðar mikilvægir hagsmunir allra!

Ofveiddir fiskstofnar leiða til minni veiði, aukins kostnaðar við að sækja aflann og neikvæðra áhrifa á vistkerfi. Samkvæmt skýrslu FAO er hægt að auka fiskframleiðslu í heiminum um 16,5 milljónir tonna með því að byggja upp ofveidda fiskstofna og gera veiðar úr þeim sjálfbærar. Hjá helmingi jarðarbúa er sjávarfang mikilvæg uppistaða, um 20%, af neyslu dýraprótína. Sjálfbærar fiskveiðar leggja þannig sinn skerf til fæðuöryggis fyrir æði marga.

Neytendur vilja sjávarafurðir úr sjálfbærum stofnum!

Nýlegar tölur úr stórri neytendakönnun sem MSC lét Globe Scan framkvæma sýna að neytendur telja að með því að kaupa sjávarfang úr sjálfbærum veiðum stuðli þeir að bættri stjórnun fiskveiða. Almenn umhverfisvitund neytenda í hinum vestræna heimi er vaxandi og þannig er líklegt að markaðir sjávarafurða muni halda áfram að gera auknar kröfur um uppruna úr sjálfbærum veiðum. Könnunin náði til 23 landa og voru þátttakendur 26.000.

 Verður til lausn?

Í Norður-Atlantshafi eru nokkur mest velmegandi lönd í heimi! Þau ættu að hafa alla burði til að semja um skiptingu afla á norsk-íslenskri síld, kolmunna og makríl og tryggja sjálfbæra nýtingu veiðanna. Það hlýtur að vera tímabært að einhver taki forystu og leiði þjóðirnar að samkomulagi. Allir myndu hagnast á því, bæði fiskstofnarnir, vistkerfi hafsins, sjávarútvegurinn og neytandinn! Og ekki síst ætti slíkt samkomulag að verða leiðarljós fyrir aðrar alþjóðlegar veiðar. Heimild: The State of World Fisheries and Aquaculture (SOFIA) 2022 MSC, Globescan 2022

Deila: