Eyjamenn að gera það gott

Deila:

Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE hafa verið að veiðum austur af landinu að undanförnu og hafa gert það býsna gott. Bæði skipin lönduðu fullfermi í Neskaupstað sl. föstudag og Bergur landaði þar aftur fullfermi sl. sunnudag. Vestmannaey landaði síðan fullfermi í Eyjum sl. þriðjudag og Bergur landaði þar rúmlega sextíu tonnum í gær.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við þá Birgi Þór Sverrisson, skipstjóra á Vestmannaey, og Jón Valgeirsson, skipstjóra á Bergi, um aflabrögðin að undanförnu. Birgir segir að það hafi verið sannkölluð vertíð fyrir austan að undanförnu. „Við höfum verið að veiða á Tangaflakinu, Glettinganesflakinu og á Litlagrunni. Þarna hefur verið alger veisla og fengist góður fiskur, mest þorskur og ýsa. Þá hefur veðrið ekki skemmt fyrir, en það hefur verið blíða allan tímann sem við höfum verið þarna,“ segir Birgir Þór.

Jón Valgeirsson tekur undir með Birgi og segir að aflabrögðin eystra hafi verið glimrandi góð. „Við höfum einkum fengið þarna afar vænan og góðan þorsk að undanförnu. Veiðin hefur farið fram á svipuðum slóðum og síldin hefur veiðst á að undanförnu. Þarna er þorskurinn að japla á síldinni og þægilegt að ná honum. Við ætluðum síðan að ná í dálítið af ýsu núna undir lokin en þá datt ýsuveiðin svolítið niður. En það er engin ástæða til að kvarta því þarna hefur einfaldlega verið hörkuveiði. Nú eru menn að halda á árshátíð til Gdansk en það er ekki ósennilegt að farið verði austur fyrir land þegar haldið verður til veiða á ný,“ segir Jón.
Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu fullfermi í Neskaupstað sl. föstudag. Ljósm. Smári Geirsson

 

 

Deila: