Fínasti túr hjá Blængi

Deila:

Frystitogarinn Blængur NK landaði í Neskaupstað í gær. Aflinn er rúmlega 570 tonn upp úr sjó að verðmæti 274 milljónir króna. Veiðiferðin hófst í lok septembermánaðar þannig að hún stóð í tæpan mánuð. Skipstjóri framan af var Sigurður Hörður Kristjánsson en síðan settist Lúðvík Emil Arnarson Kjerúlf í skipstjórastólinn og er þetta í fyrsta sinn sem hann gegnir skipstjórastarfinu um borð. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Lúðvík og spurði fyrst hvort það væru ekki tímamót fyrir hann að sinna skipstjórastarfinu.

„Jú, auðvitað eru það tímamót en ég hef verið stýrimaður á Blængi frá því að Síldarvinnslan eignaðist skipið árið 2015. Sigurður Hörður var skipstjóri framan af túrnum og þá var reynt við grálúðu og karfa í Skerjadýpinu, á Hampiðjutorginu og í Kartöflugarðinum í endalausum brælum. Fyrri hluti túrsins var semsagt erfiður veðurfarslega. Skipið þurfti síðan að fara inn á Ísafjörð vegna smávægilegrar bilunar og þá tók ég við af Sigurði.

Við fórum út frá Ísafirði 23. september og þá var haldið á Halamið. Aflinn var blandaður en það fiskaðist ágætlega. Við fengum þarna ágætt af ufsa en síðan var veitt í Drangál, á Straumnesbanka og Hornbanka, komið við á Skagagrunni, teknir tveir góðir sólarhringar á Sléttugrunni og síðan fengum við fína rest á Rifsbanka. Aflinn í túrnum er 190 tonn af ufsa, 110 tonn af þorski, 80 tonn af ýsu og síðan nokkuð af grálúðu, gullkarfa og djúpkarfa. Þá er allt í lagi að nefna að það fékkst óvenju mikið af löngu í túrnum. Við hættum veiðum að kvöldi 24. október og þá var skipið þrifið hátt og lágt. Það þurfti að þrífa vel því nú verður haldið til Póllands þar sem menn ætla að skemmta sér ærlega á árshátíð,“ segir Lúðvík.
Landað úr Blængi NK. Ljósm. Smári Geirsson

 

 

Deila: