Mowi eignast meirihluta í Arctic Fish

Deila:

Norska fiskeldissamsteypan Mowi hefur kynnt fyrirætlan sína á kaupum á hlutafé í íslenska eldisfyrirtækinu Arctic Fish. Með kaupunum mun Mowi eignast 51,28% í íslenska félaginu. Tilboð Mowi hljóðar upp á 115 norskar krónur á hlut, sem gerir ríflega 26 milljarða íslenskra króna.

Arctic Fish hefur leyfi til eldis á 10 svæðum á 27.100 tonnum af laxi á ári og umsókn um eldi á 4.800 tonnum er í kerfinu. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að slátra 10.600 tonnum á þessu ári.
„Það er mikil þróun og vöxtur í íslensku laxeldi á komandi árum og því erum við mjög ánægðir með að fá tækifæri til að taka þátt í þessari þróun. Aðstæður í sjónum við Ísland eru afskaplega góðar fyrir vöxt og viðgang laxins,“ segir Ivan Vindheim, forstjóri Mowi í tilkynningu frá fyrirtækinu. Mowi hefur fylgst í mörg ár með Arctic Fish og er ánægt með hvernig starfsmenn, stjórnendur og eigendur hafi leitt fyrirtækið til forustu í laxeldi á Íslandi.
Vindheim segir einnig að staðsetning Arctic Fish og styrkleiki falli vel að stefnu og markmiðum Mowi. Sem hluti af Mowi muni Arctic Fish og aðrir eigendur þess njóta áframhaldandi vaxtar í krafti fjárhagslegs styrkleika Mowi til hagsbóta fyrir nærumhverfi Arctic Fish.
Kaupin eru háð  samþykki framkvæmdastjórnar ESB og annarra skilyrða, en greitt er fyrir hlutaféð í reiðufé.
Mowi er eitt af stærstu fiskeldisfyrirtækja veraldar og framleiddi 466.000 tonn af laxi á síðasta ári í sex löndum, Noregi, Skotlandi, Írlandi, Færeyjum, Kanada og Síle. Með framleiðslu á heimsvísu næst stjórn yfir framleiðslu, flutningum og sölu. Mowi er með höfuðstöðvar í Bergen í Noregi og hjá því starfa 11.500 manns í 25 löndum. Fyrirtækið er skráð í norsku kauphöllinni og var velta þess ríflega 600 milljarðar í fyrra.

Deila: