ESB enn háðara innflutningi sjávarafurða en áður

Deila:

Neysla sjávarafurða í flestum löndum Evrópusambandsins er minnkandi vegna minna framboðs því  er ESB enn meira háð innflutningi sjávarafurða en nokkru sinni áður. Þetta er niðurstaða skýrslu samtaka evrópskra fiskframleiðenda og seljenda, AIPCE.

Í skýrslunni segir tvo þætti skipta þarna mestu, útgöngu Bretlands úr ESB og minni afli fiskiflota sambandsins sjálfs. Skotland er mikill framleiðandi í laxeldi og flutti mikið inn á markaðinn á meginlandinu. Nú er Skotland komið út úr ESB og því telst sala Skota á laxi til Evrópu nú vera innflutningur.

Framboð á fiski innan ESB nam 12,5 milljónum tonna innan ESB í fyrra. Innflutningur var 9 milljónir tonna eða 72% og hlutur aðildarland ESB því aðeins 3,5 milljónir tonna. AIPCE telur að á þessu ári dragist framboð frá aðildarlöndum ESB saman um 7% og heildarframboð falli niður í 11,6 milljón tonn. Því valdi bæði samdráttur innan ESB og framboð frá öðrum löndum.

Í skýrslunni segir að Covid-19 sé einn helsti orsakavaldurinn, meðal annars vegna raskana í flutningum og hækkandi flutningskostnaðar, sem enn sé við lýði. Meðan efnahagur sé að færast í sama horf og var fyrir faraldurinn, standi framboð ekki undir eftirspurn sem leiði til hækkandi verðlags. Þessu fylgi gífurlegar hækkanir á orkuverði vegna innrásar Rússa í Úkraínu, sem leggist á nánast alla keðjuna frá veiðum, vinnslu, flutningum og markaðssetningu.

Þetta hafi áhrif á hrávöru á matvælamörkuðum heimsins. Viðskiptahindranir ESB gagnvart Rússlandi leiði til þess að flóknara sé að nálgast sjávarafurðir frá Rússlandi. Viðskipti með sjávarafurðir verði því háð umtalsverðri óvissu hvað varðar skipulag og fjárfestingu.

„Um leið og evrópskir neytendur leggja æ meiri áherslu á hollustu og bragðgæði matvæla úr náttúrlegum auðlindum, er framtíð sjávarútvegsins nokkuð jákvæð. Skýrslan sýnir að innflutningur frá öðrum löndum sé mikilvægari en áður svo svara megi eftirspurn neytenda,“ segir í skýrslunni.

Deila: