Vænn þorskur á Dorhnbankanum

Deila:

Ísfisktogarinn Helga María AK kom til Reykjavíkur mánudagsmorgun eftir ágæta veiðiferð en í henni lá leiðin m.a. á Dorhnbankann, milli Íslands og Grænlands, en þar veiðist rígvænn þorskur á ákveðnum árstíma.

,,Við byrjuðum reyndar í Víkurálnum og tókum þar tvö hol. Það hafa fáir reynt þar fyrir sér eftir að gullkarfakvótinn var skertur en vinnsluna vantaði tíu tonn af karfa og því fórum við í Víkurálinn,” segir Friðleifur Einarsson (Leifur), skipstjóri á Helgu Maríu í samtali á heimasíðu Brims. En næst var farið á Dorhnbankann. Þangað er rúmlega 200 mílna sigling frá Reykjavík.

Á Dorhnbankanum veiddist fyrir nokkrum áratugum stór og góð rækja en nú er það þorskurinn sem þangað gengur í vetrarbyrjun.

,,Það voru ekki mörg skip á Dorhnbankanum og mest voru þar fjórir togarar. Aflinn var ágætur og þorskurinn klikkaði ekki. Hann var mjög góður og meðalvigtin hjá okkur var vel yfir fimm kílóum. Við toguðum yfirleitt á um 200 faðma dýpi og veðrið var ágætt þá daga sem við vorum á svæðinu.”

Að sögn Leifs var tekið eitt hol á Hampiðjutorginu og annað í Víkurálnum á heimleiðinni.

,,Á Torginu vorum við að leita að djúpkarfa og fengum um sex tonn eða tonn á togtímann. Það er alveg í lagi. Í Víkurálnum fæst blandaður afli þótt gullkarfinn sé atkvæðamestur. Með þessu holi náðum við að uppfylla þarfir vinnslunnar,“ segir Leifur en hann segir að farið verði aftur út að aflokinni löndun. Næst eru það heimamiðin, út af Reykjanesi, og er stefnan sett á að finna sem mest af ufsa.

 

Deila: