Líflegar umræður á Eskifirði

Deila:

Líflegar umræður sköpuðust á öðrum fundi fundaraðarinnar „Auðlindin okkar“ sem haldinn var 1. nóvember í Valhöll á Eskifirði. Fjöldi manns fylgdist með fundinum í streymi á netinu og var góð þátttaka í umræðum bæði í sal og í gegnum streymið. Á þriðja þúsund áhorfendur hafa nú fylgst með streymi frá fundaröðinni. Frá þessu er greint á heimasíðu Matvælaráðuneytisins.

Fundarstjóri fundarins á Ísafirði var Stefán Þór Eysteinsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar. Rebekka Hilmarsdóttir sérfræðingur á skrifstofu sjávarútvegs og fyrrum bæjarstjóri Vesturbyggðar hélt erindi um verkefnið Auðlindin okkar og vinnu starfshópanna Aðgengi, Samfélag, Tækifæri og Umgengni. Einnig hélt Tinna Halldórsdóttir yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú erindi um tengingu verkefnisins við framtíðarsýn Austurlands í gegnum nýsamþykkt svæðisskipulag.

Einnig tóku þátt í fundinum þau Benedikt Árnason ráðuneytisstjóri matvælaráðuneytis, Sigurður Ingi Friðleifsson úr starfshópnum Umgengni, Gréta María Grétarsdóttir, formaður starfshópsins Umgengni, Ari Kristinn Jónsson, fulltrúi í starfshópnum Tækifæri og Hreiðar Þór Valtýsson fulltrúi í starfshópnum Samfélag. Málefnaleg og lífleg umræða einkenndi fundinn og var meðal annars fjallað um mikilvægi strandveiða, orkuskipti fiskveiðiflotans, brottkast, strandveiðipotta og kolefnisspor.

Næstu fundir verða haldnir í Akóges-salnum í Vestmannaeyjum 8. nóvember og Hofi, Akureyri 15. nóvember. Öll þau sem láta sig málefni auðlindarinnar og sjávarútvegsins varða eru hvött til að fylgjast með fundunum, hægt verður að senda inn athugasemdir og fyrirspurnir í streymi.

Upptökur af fundunum á Eskifirði og Ísafirði má sjá á audlindinokkar.is.

Deila: