Skipulögð eldissvæði ógni öruggum siglingum

Deila:

Landhelgisgæslan og Samgöngustofa gagnrýna hve illa tekst að tryggja öryggi siglinga í tillögu um strandsvæðaskipulagi á Austfjörðum og Vestfjörðum. Samgöngustofa telur eldissvæði í skipulaginu hindri öruggar siglingar. Landhelgisgæslan segir að 50 metra öryggissvæði við siglingaleiðir sé allt of lítið. Sjófarendur þurfi minnst 200 metra til að geta brugðist við. Frá þessu er greint á ruv.is

Laxar fiskeldi Austfjarða áformar 10 þúsund tonna laxeldi í Seyðisfirði á þremur svæðum. Á einu þessara svæða, Sörlastaðavík, er fjörðurinn þröngur og þrengir fyrirhugað laxeldi siglingaleiðina enn frekar.

Gera verði ráð fyrir verstu aðstæðum

Í tillögu að strandsvæðaskipulagi er eldissvæði leyft í 50 metra fjarlægð frá siglingaleiðinni. Landhelgisgæslan gerir athugasemdir við þetta og telur að skipulagstillagan tryggi ekki öryggi siglinga. Gera þurfi ráð fyrir öryggissvæði sem sé nógu stórt til að tryggja öryggi við verstu aðstæður. Landhelgisgæslan telur að 50 metrar sé ekki nóg, sérstaklega fyrir stór skip. Skip sem sigli á 10 hnúta hraða sé aðeins 10 sekúndur að fara 50 metra. Skip sem verði aflvana í 20 hnúta vindi sé aðeins um 100 sekúndur að reka 50 metra. Því gefi 50 metra öryggissvæði lítinn viðbragðstíma ef eitthvað fer úrskeiðis.

Landhelgisgæslan vill að öryggissvæði siglinga verði fjórfaldað úr 50 metrum í að minnsta kosti 200 metra til að gefa sjófarendum tíma til að breyta um stefnu eða koma út akkeri. Landhelgisgæslan leggur því til að svæði fyrir eldið verði minnkað til að 200 metra öryggissvæði verði tryggt.

Verði fallist á þessa kröfu gæslunnar í endanlegu skipulagi hefur verið þrengt mjög að eldissvæðinu í Sörlastaðavík í Seyðisfirði. Svæðið yrði að vera í 200 metra fjarlægð frá ljósgeira Brimnesvita sem lýsir leiðina inn Seyðisfjörð. Stór hluti eldisvæðisins sem skilgreint er í skipulaginu yrði ónothæfur og óvíst að nægt pláss yrði fyrir starfsemina.

Samgöngustofa í miðju kafi að skilgreina siglingaleiðir

Landhelgisgæslan bendir á að Samgöngustofa vinni nú að því að skilgreina siglingaleiðir og endanlegt strandsvæðaskipulag verði að taka tillit til þess. Samgöngustofa gerir líka athugasemdir við skipulagstillöguna bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum og segir siglingaöryggi og eldisstarfsemi rekast á. Nefnir Samgöngustofa sérstaklega Seyðisfjörð, Reyðarfjörð og Ísafjarðardjúp. Þar hindri skipulögð svæði undir fiskeldi siglingar eftir hefðbundnum leiðum.

 

Deila: