Sækja þorskinn austur fyrir land

Deila:

,,Við erum núna staddir á Glettinganesflaki en hér fyrir austan hefur verið ágæt þorskveiði. Það er árviss atburður að þorskveiði glæðist fyrir austan á þessum ártíma og árið í ár virðist ekki ætla að verða nein undantekning þar á,” sagði Jóhannes Ellert Eiríksson (Elli), skipstjóri á Viðey RE, er heimasíða Brims náði tali af honum um helgina.

Töluverður floti skipa er nú á miðunum fyrir austan í sama tilgangi og áhöfnin á Viðey. Markmiðið er að veiða þann ,,gula” á meðan hann gefur sig til.

,,Skipið var hér líka í síðasta túr en þá var aflanum landað á Sauðárkróki. Það voru um 120 til 130 tonn sem flutt voru suður til   Reykjavíkur til vinnslu. Við erum nú á öðrum veiðidegi og aflabrögðin eru sambærileg við það sem veiddist í veiðiferðinni á undan,” segir Elli en í máli hans kemur fram að þorskurinn sé mjög góður og af ágætri stærð eða um þrjú til fjögur kíló.

,,Það er ágætt að hvíla Vestfjarðamið aðeins. Það er leiðindaveður þar núna og spáin er slæm, a.m.k. alla helgina. Hér er hins vegar besta veður,” segir Elli.

Fyrirhugað var að landa aflanum í Þorlákshöfn og fara þaðan á SV mið. Vestfjarðamið bíða enn um sinn enda segir Elli að þorskveiði hafi þar verið frekar treg. Ufsi og karfi hafa gefið sig til annað slagið en heilt yfir hafa aflabrögðin ekki verið sérstök. Það eina sem ekki bregst er veðrið og það er sjaldan gott.

 

Deila: