Líflegar umræður og skoðanaskipti í Eyjum

Deila:

Líflegar umræður og skoðanaskipti áttu sér stað á vel sóttum þriðja fundi fundaraðarinnar Auðlindin okkar sem haldinn var 8. nóvember í Akóges-salnum í Vestmannaeyjum. Umhverfis- og loftlagsmál, hafrannsóknir, stafræn þróun, fyrirsjáanleiki, orðspor sjávarútvegs, samfélagssátt, strandveiðar, orkuskipti og byggðakvóti voru fundargestum ofarlega í huga.

Líkt og á fundunum á Ísafirði og Eskifirði var þátttaka góð í umræðum, bæði í sal og í gegnum streymið. Fundarstjóri var Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Rebekka Hilmarsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu sjávarútvegs og fyrrum bæjarstjóri Vesturbyggðar, kynnti verkefnið Auðlindin okkar og vinnu starfshópanna Aðgengi, Samfélag, Tækifæri og Umgengni. Á þriðja þúsund áhorfenda hafa nú fylgst með streymi frá fundaröðinni.

Auk fjölmargra fundargesta sem tóku þátt í umræðum tóku einnig þátt í fundinum þau Jónas Rúnar Viðarsson, sviðsstjóri Matís og fulltrúi í starfshópnum Umgengni, Friðrik Árni Friðriksson, framkvæmdastjóri hjá Lagastofnun Háskóla Íslands og fulltrúi í starfshópnum Aðgengi, Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans og fulltrúi í starfshópnum Tækifæri, Gunnar Haraldsson, framkvæmdastjóri Intellecon og formaður starfshópsins Samfélag, Óskar Veigu Óskarsson, sölustjóri Marel og fulltrúi í starfshópnum Tækifæri og Benedikt Árnason ráðuneytisstjóri matvælaráðuneytis.

Næsti og síðasti fundur Auðlindarinnar okkar verður haldinn í Hofi á Akureyri 15. nóvember.

Öll þau sem láta sig málefni auðlindarinnar og sjávarútvegsins varða eru hvött til að fylgjast með fundinum, hægt verður að senda inn athugasemdir og fyrirspurnir í streymi.

Streymið af fundunum á Ísafirði, Eskifirði og í Vestmanneyjum má sjá á audlindinokkar.is ásamt ítarlegri upplýsingum um verkefnið.

 

Deila: