Hundrað tonn á tveimur sólarhringum

Deila:

Ísfisktogarinn Akurey AK var á föstudag á vesturleið við suðurströnd landsins eftir vel heppnaða veiðiferð á miðin út af Austfjörðum. Eiríkur Jónsson, skipstjóri, segir í samtali við heimasíðu Brims aflann a.m.k. 105 tonn en hann fékkst á tæpum tveimur sólarhringum.

,,Við fórum austur frá Þorlákshöfn, þar sem við lönduðum síðast, og köstuðum fyrst á miðvikudagsmorgni. Svo var híft í síðasta sinn í morgun klukkan fimm. Það er mikið af þorski fyrir austan og áætlaður afli hjá okkur er 105 tonn. Allt er þetta góður fiskur og ég gæti giskað á að meðalvigtin væri þrjú kíló,” segir Eiríkur en hann segir töluvert af skipum vera á veiðislóðinni. Auk íslensku skipanna séu þarna Færeyingar og Norðmenn að veiða norsk-íslenska síld.

,,Skipin eru víða. Sumir eru í einhverju ýsublandi upp á grunnunum og sumir eru norðar á slóðinni. Sjálfir vorum við mest sunnan við Gerpi og suður á svonefnt Herðablað. Það lóðar ekki mikið á íslensku sumargotssíldina en hún kann að vera dreifð,” segir Eiríkur.

Á leiðinni vestur og fyrir löndun er markmiðið sett á að veiða ufsa og djúpkarfa.

,,Ég reikna með að fara á þessar hefðbundnu staði, Skerjadjúpið og í nágrenni Selvogsbanka. Það er víst búið að loka Fjallasvæðinu í einhvern tíma. Það er gert vegna þess að það þótti vera of mikið af smáum ufsa á svæðinu,” segir Eiríkur Jónsson.

 

Deila: