1.100 tonn í fjórum holum

Deila:

Uppsjávarveiðiskipið Venus NS er kom til heimahafnar á Vopnafirði ó byrjun vikunnar. Í tönkum skipsins voru 1.070 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst í djúpkantinum út af Faxaflóa.

Venus var í fyrstu og síðustu veiðiferð ársins á íslensku síldinni en það kemur svo í hlut Víkings AK að ljúka við að veiða kvóta Brims. Bergur Einarsson, skipstjóri á Venusi, segir að töluvert hafi verið um íslenska sumargotssíld sem meðafla þegar verið var að veiða norsk-íslensku síldina og það skýri hvers vegna svo lítið sé eftir af kvótanum.

,,Það gekk mjög vel að veiða síldina og það er greinilega nóg af henni. Hins vegar var stöðug ótíð og það setti strik í reikninginn,” segir Bergur sem kveðst seint gæta sætt sig við veðrið fyrir vestan en sjálfur er hann Austfirðingur, búsettur á Fáskrúðsfirði.

Að sögn Bergs er íslenska síldin mjög góð en töluvert smærri en norsk-íslenska síldin. 280 til 300 grömm sé þó fín stærð.

,,Ég veit ekki alveg hvernig framhaldið verður hjá okkur. Við skutumst inn á Norðfjörð og þar tökum við kolmunnatrollið. Loðnuleit gæti líka komið til greina. Við tókum eitt tilraunahol úti fyrir Suðurlandi í von um að verða varir við gulllax en það gekk ekki eftir,” segir Bergur Einarsson í samtali á heimasíðu Brims.

 

Deila: