Faxaflóahafnir taka upp umhverfiseinkunnarkerfi fyrir skemmtiferðaskip

Deila:

Faxaflóahafnir taka upp umhverfiseinkunnarkerfi fyrir skemmtiferðaskip að norskri fyrirmynd, Environmental Port Index (EPI), með ívilnun eða álögum eftir umhverfishegðun skipa á hafnarsvæði.

EPI á upptök sín í Noregi þar sem höfnin í Björgvin, Det Norske Veritas (DNV), ásamt helstu skemmtiferðaskipahöfnum Noregs tóku sig saman og þróuðu nýtt umhverfiseinkunnarkerfi sem tekur sérstaklega á umhverfishegðun skipa á hafnarsvæði. Faxaflóahafnir eru fyrstu hafnir utan Noregs sem taka upp EPI einkunnarkerfið og tengja það við sína gjaldskrá fyrir 2023. Við innleiðingu var stuðst við fyrirkomulag hjá höfninni í Stavanger, en með vægari álögur þar sem Faxaflóahafnir eru ekki enn komnar með landtengingar fyrir stærri skemmtiferðaskip.

EPI er verkfæri sem gerir höfnum kleift að skilgreina umhverfisspor skemmtiferðaskipa á meðan viðkomu stendur. Markmiðið er að koma á fjárhagslegu hvatakerfi til umhverfisvænni og sjálfbærari rekstrar skemmtiferðaskipa og draga þannig úr ávinningi við að koma til hafna Faxaflóahafna með mengandi skip.

Skemmtiferðaskipum ber að skila inn gögnum til mats á umhverfisframmistöðu í höfn eigi síðar en 72 klst. eftir brottför. Á grunni þeirra gagna fær hvert skip EPI einkunn milli 0 (verst) og 100 (best).

„Innleiðing á umhverfiseinkunnarkerfi EPI er í samræmi við stefnuáherslu Faxaflóahafna með grænar hafnir og forystu í loftslags- og umhverfismálum í hafnsækinni starfsemi. Þar hefur verið mikilvægt að horfa til reynslu Norðmanna og ekki síst hefur EPI sýnt fram á mælanlegan árangur í að minnka umhverfisáhrif skemmtiferðaskipa í norskum höfnum“ segir Sigurður Jökull Ólafsson markaðsstjóri Faxaflóahafna í frétt frá Faxaflóahöfnum.

 

Deila: