Fiskeldið er grunnstoð til framtíðar

Deila:

„Mikil uppbygging hefur átt sér stað í fiskeldi hér á landi á undanförnum árum og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun. Umsvif greinarinnar hafa þar með stóraukist og skapast hefur nýr og öflugur grunnatvinnuvegur á Íslandi. Áhrif greinarinnar eru margfalt meiri í efnahagslegu tilliti en umfang hennar, eitt og sér, gefur til kynna. Þannig skapast fjölmörg störf í öðrum atvinnugreinum, sem eru beint eða óbeint háð starfsemi fiskeldisfyrirtækja. Afleidd og óbeinu áhrif greinarinnar eru hvað sýnilegust á Vestfjörðum og á Austurlandi þar sem fiskeldi er hvað umsvifamest um þessar mundir. Þar hefur til dæmis fjölbreytni atvinnulífs aukist, fólki fjölgað og aukið líf færst yfir á fasteignamarkaðinn. Þetta má rekja beint til aukinna umsvifa í starfsemi fiskeldisfyrirtækjanna sjálfra og óbeint til afleiddra áhrifa sem eldið hefur á aðrar atvinnugreinar.“

Svo segir í frétt sem birt er á Radarnum, upplýsingasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar segir ennfremur:

Augljós áhrif á vinnumarkað
„Áhrif aukinna umsvifa í fiskeldi hér á landi er ekki aðeins að merkja í útflutningstölum eins og nýlega var fjallað um á Radarnum, heldur sjást þau einnig greinilega í tölum af vinnumarkaði. Þannig hafa aldrei fleiri starfað við fiskeldi hér á landi og nú í ár og að sama skapi hafa atvinnutekjur í greininni aldrei verið meiri. Þetta má sjá í tölum um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur sem Hagstofan birtir mánaðarlega, en nýjustu tölur þess efnis ná til september í ár.

Að jafnaði fengu um 670 einstaklingar greiddar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í fiskeldi á mánuði hverjum á fyrstu 9 mánuðum ársins samanborið við um 590 manns á sama tímabili í fyrra. Jafngildir það fjölgun upp á tæp 15% á milli ára. Hið sama er upp á teningnum varðandi atvinnutekjur í greininni, það er samanlagðar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur allra launþega innan greinarinnar. Á fyrstu 9 mánuðum ársins námu atvinnutekjur í fiskeldi tæplega 4,8 milljörðum króna. Það er um 25% aukning að nafnvirði á milli ára, en um 16% að raunvirði.

Fjárfesting í hæstu hæðum
Ofangreind þróun kemur eðlilega ekki til af sjálfu sér enda liggur gríðarleg vinna og fjármagn að baki við skipulag og framkvæmdir af hálfu fyrirtækjanna. Fjárfesting í fiskeldi hefur heldur aldrei verið meiri en á undanförnum árum, líkt og blasir við í nýuppfærðum tölum á Radarnum og á myndinni hér fyrir neðan. Mikil uppbygging er jafnframt í greininni nú um stundir og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun miðað áætlanir fiskeldisfyrirtækja. Aukning undanfarinna ára hefur fyrst og fremst verið drifin áfram af framleiðslu á laxi úr sjókvíaeldi. Framleiðsla á landi hefur verið margfalt minni, en horfur eru á verulegri aukningu í þeim efnum næsta áratuginn, sér í lagi á suðvesturhorni landsins. Þessar fyrirætlanir eldisfyrirtækjanna koma líka heim og saman við að bleikur fiskur, sér í lagi lax, nýtur sífellt meiri vinsælda hjá neytendum víða um heim. Jafnframt eru horfur á að jarðarbúum muni fjölga enn frekar á næstu áratugum, sem eykur spurn eftir prótíni sem erfitt verður að mæta með hefðbundnum veiðum á villtum fiski. Í síðustu viku urðu jarðarbúar 8 milljarðar talsins og samkvæmt mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna munu þeir verða 9,7 milljarðar árið 2050. Fiskeldi getur því orðið mikilvægur hlekkur í að tryggja fæðu fyrir komandi kynslóðir. Því má ljóst vera að veruleg sóknartækifæri eru til staðar í fiskeldi hér á landi, sem getur ótvírætt haft jákvæð áhrif á þjóðarbúið og samfélög víða um land um ókomin ár.“

 

 

Deila: