Sanna Marin og Katrín Jakobsdóttir heimsóttu Brim

Deila:

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, heimsóttu Brim að Norðurgarði ásamt fylgdarliði sínu sl. þriðjudag. Guðmundur Kristjánsson, forstóri Brims, tók á móti þeim og sagði stuttlega frá fyrirtækinu og fólkinu sem þar starfar. Kom þar fram áhersla félagsins á sjálfbæra þróun þar sem saman fer traustur og arðbær rekstur, sjálfbær nýting auðlinda og aðgerðir til að draga úr vistspori og í þriðja lagi vaxandi áhersla á traust samskipti við samfélagið. Gestirnir gengu um skrifstofur félagsins og vinnslusali undir leiðsögn Guðmundar sem útskýrði vinnsluferla og sýndi hátæknibúnað við vinnu. Þá var gengið um borð í eitt nýjasta skip félagsins, Viðey, sem lá við Norðurgarð en fyrr um morguninn hafði hann landað góðum og ferskum afla. Sanna Marin var í opinberri vinnuheimsókn til Íslands. Að loknum fundum gáfu þær Sanna og Katrín sér tíma til að skoða sig um á Grandagarði.

Sönnu Marin þótti sagan skemmtileg af listaverkinu sem nemendur Lanholtsskóla árið 1985 unnu eftir skólaheimsókn í fyrirtækið og færðu því síðan að gjöf. Brim varðveitti verkið og setti fyrir um ári upp á skrifstofum fyrirtækisins. Nýverið kom síðan í ljós að einn hinna ungu listamanna var einmitt Katrín Jakobsdóttir, núverandi forsætisráðherra.

Deila: