Færeyjar og Rússland semja um fiskveiðar á næsta ári

Deila:

Færeyjar og Rússland hafa gert gagnkvæman samning um fiskveiðar fyrir næsta ár. Hann er í raun framlenging á þessa árs samningi, en heimildir Færeyinga innan lögsögu Rússa í Barentshafi lækka um 20% í samræmi við lækkun leyfilegs heildarafla í Barentshafinu á næsta ári.

Heimildir Færeyinga til rækjuveiða innan rússnesku lögsögunnar hækka um 1.500 tonn og verða 4.000 tonn. Þorskkvótinn verður 12.285 tonn, ýsu kvótinn 1.276 tonn og 900 tonn af flatfiski mega þeir veiða.

Rússar fá á móti að veiða 72.000 tonn af kolmunna, 13.000 tonn af makríl og 8.500 tonn af norsk-íslenskri síld innan lögsögu Færeyja.

Færeyingar tóku ekki þátt í efnahagslegum refsiaðgerðum gegn Rússum árið 2014, þegar þeir hernámu Krímskaga og hafa því átt í óheftum viðskiptum við þá  á sama tíma og Ísland getur ekki selt Rússum sjávarafurðir afurðir aðrar en lagmeti. Með þessum samningi við Rússa halda Færeyingar áfram viðskiptatengslum við Rússa, en samningurinn er mjög umdeildur innan Færeyja. Íslendingar hafa verið með samning við Rússa um þorskveiðar innan lögsögu þeirra í Barentshafi, en hann hefur ekki verið nýttur á þessu ári.

Deila: