Umfangsmikil leit að sjómanni á Faxaflóa

Deila:

Leit að manni sem féll útbyrðis úr fiskiskipi á utanverðum Faxaflóa í fær er ein sú umfangsmesta í mörg ár. Átta skip leita nú mannsins og þyrla Landhelgisgæslunnar sömuleiðis. Leitin hélt áfram klukkan 10 í morgun og fóru þá björgunarskip, varðskipið Þór og fiskiskip að leitarsvæðinu. Þyrla Landhelgisgæslunnar hóf leit klukkan 11.

Leitarsvæðið hefur verið stækkað frá því í gær í takt við þann tíma sem liðinn er síðan maðurinn féll útbyrðis. Mannsins hefur verið saknað síðan síðdegis í gær og er nú leitað á 10 sjómílna radíus um 25 sjómílur norðvestur af Garðskaga.

Guðmundur Birkir Agnarsson, aðgerðastjóri hjá Landhelgisgæslunni, segir í samtali á ruv.is í gær að leitarskilyrði séu verri en í gær. Sjórinn í Faxaflóa er um fimm gráðu heitur.

„Aðstæður núna eru þannig að það hefur svona aðeins bætt í vind og öldur síðan í gær. Svo er skyggni orðið takmarkaðra, það gengur svona á með útsynningi, svona súldarhryðjur og skyggni er í takmarkaðan tíma.“
Sjóslys eru blessunarlega orðin fátíðari en var, segir Guðmundur.

„Við höfum verið síðustu ár laus við banaslys á sjó og þar meðtalið að menn falli fyrir borð. Þannig það er alveg rétt, jú, þetta er umfangsmikil leit og, eins og þú segir, kannski sú umfangsmesta síðustu ár.“
Guðmundur segir að leitað verði þar til fer að rökkva í dag.

„Það er planið að þessi skip og bátar, sem eru þarna á svæðinu, þau munu semsagt leita bara fram í myrkur, nema eitthvað finnist.“

 

Deila: