Mikil aukning í útflutningsverðmæti sjávarafurða

Deila:

Verðmæti vöruútflutnings í nóvember 2022 jókst um 6,8 milljarða króna, eða um 9,5%, frá nóvember 2021, úr 72,1 milljarði króna í 78,9 milljarða. Mesta aukningin á milli ára var verðmæti útfluttra iðnaðarvara sem hækkaði um 4,5 milljarða króna eða um 12% samanborið við nóvember 2021 en útflutningur iðnaðarvara var 53,4% af heildarútflutningi. Verðmæti útflutnings í fiskeldi jókst um 3,0 milljarða króna eða um 121% samanborið við nóvember 2021.

Verðmæti vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili frá desember 2021 til nóvember 2022 var 977,3 milljarðar króna og jókst um 231,1 milljarð króna miðað við sama tímabil ári fyrr eða um 31% á gengi hvors árs. Iðnaðarvörur voru 57% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánuði og jókst verðmæti þeirra um 47% frá fyrra tólf mánaða tímabili. Sjávarafurðir voru 35% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánuði en verðmæti þeirra jókst um 15,3% í samanburði við fyrra tólf mánaða tímabil.

Fluttar voru út vörur fyrir 78,9 milljarða króna fob í nóvember 2022 og inn fyrir 120,9 milljarða króna cif (110,6 milljarða króna fob) samkvæmt bráðabirgðatölum. Vöruviðskiptin í nóvember, reiknuð á fob/cif-verðmæti, voru því óhagstæð um 42,0 milljarða króna. Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 28,5 milljarða króna í nóvember 2021 á gengi hvors árs fyrir sig. Vöruskiptajöfnuðurinn í nóvember 2022 var því 13,5 milljörðum óhagstæðari en á sama tíma fyrir rúmu ári. Vöruskiptajöfnuður síðustu tólf mánaða var óhagstæður um 327,8 milljarða króna sem er 108,7 milljörðum óhagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni.

 

 

Deila: