Æti fyrir þorsklirfur ræður nýliðun

Deila:

Nýliðun í þorskstofninum á landgrunni Færeyja breytist mikið ár frá ári. Frá árinu 2005 hefur nýliðun verið mjög léleg. Það tengist að miklu leyti framboði á hæfilegu æti fyrir þorsklirfur og seiði áður en þau færa sig niður á botninn.

Færeyski þorskstofninn hefur verið rannsakaður reglulega í 60 ár. Í júní 1983 hóf Havstovan reglulega leiðangra til að kanna vöxt og viðgang þorskseiða og í apríl 1997 hófust leiðangrar til að kanna þorsklirfur. Á nokkurra ára tíma var magainnihald 5.000 lirfa og seiða kannað með það í huga að fá upplýsingar um það hvaða áhrif ætisframboð hafi á nýliðunina.

Nú hafa niðurstöður þessara rannsókna verið kynntar í tveimur vísindagreinum í tímaritinu Marine Biology. Í fyrri greininni, sem var birt 2020,  er farið yfir fæðu þorsklirfa og -seiða. Á fyrstu stigum nærast lirfurnar mest á mjög smárri dýraátu og eftir því seiðunum vex fiskur um hrygg, taka þau til sín stærri átu. Rannsóknin sýnir að lirfurnar eru matvandar, þær velja tegund átu  og stærð. Þegar þær stækka og þroskast eftir 1-2 mánuði geta þær átt erfitt með að fá næga fæðu.

Í seinni greininni, sem er nýkomin út, er sýnt að fjöldi þorsklirfum strax að lokinni hrygningu tengist stærð hrygningarstofnsins. Því skiptir miklu máli að hrygningarstofninn sé sjálfbær. Stór hrygningarstofn er þó ekki trygging fyrir því að nýliðun verði mikil. Afföll eru mikil á lirfu- og seiðastigi og sveiflast mikið. Nýja greinin sýnir að nýliðunin tengist  afkomunni frá lirfu til seiða og ræðst hún af magni hæfilegrar fæðu. Það er gróðurinn að vori sem ræður því hve mikið fæðuframboð er fyrir lirfurnar.

Fyrstu þrjá mánuði ævinnar lifa þorsklirfur- og seiði ofarlega í sjónum. Eftir að kviðpokatímabilinu lýkur éta lirfurnar ofursmáa dýraátu eins og hrogn marflóa (vatnsloppa), síðan lirfur þeirra, loks flærnar sjálfar og að lokum smáar krabbalirfur. Þar sem lirfurnar eru lélegar að synda, þurf þær helst að vera í námunda við eða inni í átuflekkjum.

Deila: