LS mótmælir fyrirhuguðum breyting á strandveiðum

Deila:

Í Samráðsgátt stjórnvalda hafa verið til umsagnar áform matvælaráðherra að breyta ákvæði laga um stjórn fiskveiða sem fjallar um strandveiðar.  Breytingunni er ætlað að afnema núverandi veiðifyrirkomulag og koma á svæðaskiptingu líkt og var árið 2017 og fyrr.

Í umsögn Landssambands smábátaeigenda er áformum ráðherra harðlega mótmælt og segir svo á heimasíðu LS:

„Nái þau fram að ganga er það í mikilli ósátt við þá sem stundað hafa strandveiðar og afturhvarf til þess veiðikerfis sem Alþingi samþykkti að hafna árið 2018.“  

Með breytingunni voru strandveiðar heimilaðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar, mánuðina maí, júní, júlí og ágúst.  Á sl. þremur árum hefur það ekki orðið raunin og á síðasta sumri keyrði um þverbak þegar veiðarnar voru stöðvaðar 21. júlí.

„Landssamband smábátaeigenda skorar á matvælaráðherra að hætta við þau áform sem kynnt eru í Samráðsgáttinni.  Þess í stað beiti ráðherra sér fyrir því að fellt verði brott ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða sem kveður á um skyldu Fiskistofu til að stöðva strandveiðar verði sýnt að afla sem ákveðinn er með reglugerð verði náð.  Þannig væri tryggt að bátar allra strandveiðisvæða landsins fái heimild til að róa 12 daga í hverjum mánuði,  maí, júní, júlí og ágúst.  Jafnframt myndi breytingin tryggja sátt milli strandveiðisjómanna án tillits þess hvar á landinu þeir gera út.“, eins og segir í umsögninni.   

Umsögn LS er afar ítarleg enda gætu áformin ef þau næðu fram að ganga haft afdrífaríkar afleiðingar fyrir framtíð strandveiða.

Sjá umsögn LS í heild.pdf

 

Deila: