Ufsi í nótt, djúpkarfi í dag

Deila:

,,Við fórum frá Reykjavík í gærkvöldi. Köstuðum á Fjallasvæðinu seint í nótt og fengum rúm fjögur tonn af ufsa eftir þriggja tíma hol. Í dag er það Skerjadjúpið og djúpkarfinn sem við reynum við. Ég nýti birtuna og við drögum á meðan dagsbirtu nýtur. Það eru ekki nema e.t.v. fimm tímar á dag,” segir Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK í samtali á heimasíðu Brims í gær.

Heimir var einnig skipstjóri í túrnum á undan. Þá var byrjað á Dohrnbankanum vestur af Vestfjörðum, miðja vegu á milli Íslands og Grænlands.

,,Við vorum á Dohrnbankanum með Viðey RE og fengum góðan þorskafla, rígvænan fimm til sjö kílóa þorsk. Það koma góður kaflar á þessum slóðum á haustin og fram í desember. Ég veit ekki hvert þorskurinn er að ganga en hann virðist vera á austurleið. Ef af líkum lætur gengur þorskurinn á hrygningarsvæðið í Breiðafirði eða finnur sér leið til hrygningarsvæðanna við suðurströndina,” segir Heimir en þrátt fyrir góðan afla var ákveðið að hvíla Dohrnbankann og leita þess í stað ufsa í Víkurálnum.

,,Því miður var lítið af ufsa í Víkurálnum en þeim mun meira af gullkarfa. Þannig hefur það verið í allt haust. Það hefur verið erfitt að finna ufsann og mikið magn af gullkarfa úti um allar koppagrundir hefur ekki auðveldað þá leit.”

Nú þegar fregnir hafa borist af loðnuveiðum á Kolbeinseyjarsvæðinu má búast við því að þorskur gangi af krafti á svæðið.

,,Ég hef ekkert frétt ennþá en ef loðna hefur gengið í einhverjum mæli á svæðið þá er þorskurinn ekki langt undan. Hann eltir loðnuna. Er uppi í sjó á daginn þegar loðnan þéttir sig en fer svo niður í sjó á meðan myrkurs gætir,” segir Heimir Guðbjörnsson.

Þess má geta að Helga María var með um 125 tonna afla í síðasta túr og var þorskur uppistaða aflans. Leitað var að ufsa í lok veiðiferðarinnar. Heimir og hans menn fundu ekki ufsa á Fjöllunum en ráku svo í ufsa undir lokin á Reykjanesgrunni.

 

Deila: