Deila:

Viðræður strandríkja við Norðaustur-Atlantshafið um samstarf við eftirlit með fiskveiðum, viðræður um um kolmunna og makríl voru á dagskrá í London í síðustu viku. Auk þess fóru þar fram tvíhliða viðræður milli Bretlands og Færeyja vegna veiða á næsta ári.

Hvað varðar eftirlit á Norðaustur-Atlantshafi tóku Ísland, Færeyjar, Bretland, Noregur, Grænland og Evrópusambandið sig saman um samstarf til framtíðar á þessu sviði. Mun það hefjast með  fundi í janúar.

Samkomulagið snýst um samræmdar reglur um eftirlit og framfylgni þeirra við veiðar á kolmunna, norsk-íslenskri síld, makríl og hrossamakríl, bæði á sjó og í landi. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem þjóðríkin sex hafa náð saman um slíkar reglur og er gert ráð fyrir því, að þær verði fyrirmynd við eftirlit við veiðar og vinnslu annars staðar í heiminum.

Samkomulag varð um leyfilegan heildarafla í samræmi við ábendingar Alþjóða hafrannsóknaráðsins á kolmunna upp á 1.359.629 tonn og makríl upp á 782.066 tonn. Fyrir þessa fundi höfðu strandríkin náð samkomulagi um heildarafla á norsk-íslenskri síld upp á 511.171 tonn í samræmi við ráðleggingar ráðsins. Snemma á næsta ári kemur svo að því að deila þessum heimildum á milli landanna.

Byrjað verður á viðræðum um kolmunna og norsk-Íslenska síld í lok janúar í London. Sjötta febrúar hefjast viðræður um makríl í London og þeim haldið áfram sjötta mars í Nuuk og loks 27. mars í London. Þess ber að geta að undanfarin á hefur ekki verið samkomulag um skiptingu veiðiheimildanna og hefur það leit til veiða umfram ráðleggingar Alþjóða hafrannsóknaráðsins.

Hvað varðar samningaviðræður Færeyja og Bretlands eru þær komnar vel áleiðis, en hlé hefur verið gert á þeim. Þeim verður haldið áfram á netinu, en lýkur ekki fyrr en ný stjórn verður skipuð í Færeyjum.

Færeyingar voru í forsæti fyrir viðræðunum og kolmunna og norsk-íslenska síld. Noregur var í forsæti fyrir viðræðunum um fiskveiðieftirlit og Bretar stýrðu viðræðum um makríl og samningum Breta og Færeyinga.

Nánar má lesa um samningana hér.

 

Deila: