Fimm skip í smíðum

Deila:

Tveir nýir ferskfisktogarar, tvö uppsjávarskip og hafrannsóknaskip munu bætast í flotann á næstu rösklega tveimur árum, auk þess sem á næsta ári verður afhentur stálbátur í krókaaflamarkskerfinu, sem þykir nokkrum tíðindum sæta. Þetta eru einungis þau verkefni sem samið hefur verið um en samkvæmt heimildum eru nokkrar útgerðir með smíði stærri skipa í undirbúningi og enn sem komið er á hugmyndastigi. Það er sammerkt með öllum nýsmíðaverkefnunum að lögð er mikil áhersla á orkusparnað, kolefnisspor og umhverfisáhrif.

Nýr stálbátur í krókaaflamarkskerfið

Hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur er í smíðum tæplega 30 tonna stálbátur fyrir útgerðarfyrirtækið Stakkavík í Grindavík og verður báturinn í krókaaflamarkskerfinu. Þetta er sögulegt þar sem tveir áratugir eru síðan smíðaður var stálbátur fyrir þennan útgerðarflokk en plastbátarnir hafa verið ráðandi mörg undanfarin ár í smábátunum. Skrokkur bátsins er smíðaður í Tyrklandi og er báturinn væntanlegur til landsins undir vorið en lokafrágangur tækja og búnaðar verður hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur. Báturinn ber nafnið Margrét GK-9 og er áætlað að afhenda hann til Stakkavíkur í maí eða júní.

Togari Ramma í smíðum í Tyrklandi

Reiknað er með að undir árslok 2023 verði nýr ferskfisktogari Ramma hf. afhentur en skipið er í smíðum hjá Celiktrans skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Skipið er hannað af Nautic ehf. og er það rúmir 48 metrar á lengd og 14 metra breitt. Það verður búið fjórum togvindum og getur dregið þrjú troll samtímis. Skipinu eru fyrst og fremst ætlað að stunda botnfiskveiðar en getur einnig nýst til humarveiða ef úr þeim rætist. Áætlaður kostnaður við smíðina er um þrír milljarðar króna. Hafrannsóknaskipið væntanlegt haustið 2024 Eitt stærsta smíðaverkefnið sem nú stendur yfir á skipasviðinu er nýtt hafrannsóknaskip sem er í smíðum hjá spænsku skipasmíðastöðinni Astilleros Armón. Skipið mun fá nafnið Bjarni Sæmundsson og leysa samnefnt hafrannsóknaskip af hólmi sem orðið er rúmlega hálfrar aldar gamalt. Samið var um smíðina í mars síðastliðnum og er gert ráð fyrir að nýja skipið komi til heimahafnar hafrannsóknaskipanna í Hafnarfirði haustið 2024.

Systurskip frá Karstensens

Endurnýjun í uppsjávarflotanum heldur áfram en nýjustu skipin í þeim útgerðarflokki eru systurskipin Vilhelm Þorsteinsson EA og Börkur NK sem smíðuð voru hjá Karstensens skipasmíðastöðinni í Danmörku. Sú stöð heldur áfram að smíða fyrir íslenskar útgerðir því nú er hafin smíði á nýju uppsjávarskipi fyrir Skinney Þinganes sem áætlað er að ljúki á fyrri hluta árs 2024. Skipið er sérstakt fyrir þær sakir að hönnun miðaði að því að djúprista yrði sem minnst og verður hún aðeins 6,5 metrar. Þetta er gert vegna aðstæðna við innsiglinguna á Hornafirði. Skipið verður rúmlega 75 metra langt og 16,5 metra breitt.

Smíðað á Spáni fyrir Þorbjörn

Loks er að nefna nýjan ferskfisktogara fyrir útgerðarfyrirtækið Þorbjörn í Grindavík en togarinn verður smíðaður hjá Armon Gijon á Spáni. Skipið verður 58 metra langt og 16 metra breitt. Nýi togari Þorbjarnar er hönnun frá Skipasýn sem einnig hannaði frystitogarann Baldvin Njálsson sem kom til landsins fyrir rösku ári. Það skip var einnig smíðað í Armon á Spáni. Lögð er áhersla á sjálfvirkni, vinnuaðstöðu og aðbúnað áhafnar í hönnun nýja skipsins fyrir Þorbjörn hf. en einnig verður skipið þannig útfært að auðvelt verði að breyta því í frystiskip ef á þyrfti að halda. Gert er ráð fyrir að togarinn komi til landsins snemma á árinu 2024.

Úttekt þessi birtist áður í desemberútgáfu blaðsins Sóknarfæri, sem Ritform gefur út. Blaðinu er dreift til fyrirtækja um allt land, en það má nálgast á heimasíðu útgáfunnar https://ritform.is/

 

Deila: