Afli úr deilistofnum 425.600 tonn

Deila:

Afli úr deilistofnun uppsjávarfiska, makríls, norsk-íslenskrar síldar og kolmunna, á þessu ári er samtals 425.600 tonn. Afli þessara tegunda á árinu 2021 var 427.856. Á þessu ári voru heimildir í kolmunna og norsk-íslenskri síld ríflega fullnýttar, en nokkuð er óveitt af makríl.

Aflaheimildir í þessum tegundum miðast við almanaksárið en ekki fiskveiðiárið, enda deilum við þeim með öðrum strandríkjum við Norðaustur-Atlantshafið.

Sé litið makrílinn á þessu ár voru heimildir íslenskra skipa til veiða  148.242 tonn. Aflinn varð 127.086 tonn og því óveidd 21.156 tonn. Hluti skýringarinnar á því hve mikið er óveitt er að mjög lítið varð vart við makríl á grunnslóð við landið og því veiddu smábátar nánast ekkert að makríl í ár. Eftirstöðvarnar flytjast að miklu leyti yfir á næsta ár.

Sex fiskiskip veiddu 7.000 tonn eða meira. Það eru Börkur NK með 8.767 tonn, Vilhelm Þorsteinsson EA með 8.428 tonn, Venus NS með 7.982 tonn, Beitir NK með 7.400 tonn, Barði NK með 7.260 tonn og Aðalsteinn Jónsson SU með 7.065 tonn.

Kolmunnaaflinn nú varð 187.981 tonn. Leyfilegur heildarafli var 174.557 tonn og aflinn því 13.424 tonn umfram kvóta. Það magn verður þá dregið af heimildum næsta árs hjá þeim skipum, sem veitt hafa umfram kvóta. Fjögur skip veiddu meira en 15.000 tonn. Það eru Beitir NK með 18.953 tonn, Börkur NK með 18.151 tonn, Aðalsteinn Jónsson SU með 17.515 tonn og Vilhelm Þorsteinsson EA með 15.256.

Leyfilegur afli í norsk-íslenskri síld var 109.879 tonn, en aflinn varð 110.492 tonn. Það er 613 tonn umfram heimildir. Fimm skip veiddu meira en 7.000 tonn. Það eru Vilhelm Þorsteinsson EA með 13.561 tonn, Börkur NK með 9.770, Beitir NK með 9.686 tonn, Sigurður VE með 9.371 tonn og Heimaey VE með 7.417 tonn.

 

 

Deila: