Setur punkt eftir 40 ár í sjávarútvegsblaðamennsku

Deila:

Nú um áramótin lét Hjörtur Gíslason, ritstjóri sjávarútvegmiðilsins Auðlindarinnar, af störfum eftir langan og farsælan feril í blaðamennsku. Líkast til státar enginn af jafn langri sjávarútvegsblaðamennsku á Íslandi því Hjörtur hefur unnið nær samfellt við skrif um sjávarútvegsmál í 40 ár. Hann byrjaði í fastri vinnu sem blaðamaður á Mogganum vorið 1980 eftir að hafa verið í lausamennsku við íþróttaskrif veturna þar á undan samhliða námi í Háskóla Íslands. „Ég fikraði mig smám saman yfir í sjávarútveginn á Mogganum og árið 1982 varð hann á minni könnu. Enda eini blaðamaðurinn á ritstjórninni á þeim tíma sem migið hafði í saltan sjó, bæði unnið í fiski og verið á sjó,“ segir Hjörtur sem býr nú í Grindavík ásamt konu sinni Helgu Þórarinsdóttur.

Umbrotaár í sjávarútveginum
Hjörtur er fæddur og uppalinn á Akureyri og þar segist hann fyrst hafa fengið nasaþefinn af fjölmiðlun 13 ára gamall þegar hann fékk birta mynd af Andapollinum á Akureyri í blaðinu Íslendingi. Ritstjóri Íslendings var Halldór Blöndal, fyrrum þingmaður og ráðherra, og Halldór tók í framhaldinu Hjört með sér sem ljósmyndara í viðtal í Netagerðina á Akureyri. Myndavélin var Kodak með 12 mynda filmu!

En aftur að upphafsárunum í sjávarútvegsskrifum á Morgunlaðinu. Í byrjun níuunda áratugarins voru mikil umbrot í sjávarútveginum á Íslandi og þau settu vitanlega mark sitt á umfjöllunina.

Hjörtur við höfnina í Grindavík nú í byrjun árs.

„Eftir metárið 1981 þegar 461.000 tonn af þorski veiddust hrundu veiðarnar. Svartar skýrslur komu frá Hafró og stór hluti sjávarútvegsfyrirtækja barðist í bökkunum. Skipin voru of mörg, veiðiheimildir of litlar, skuldir of miklar og rekstrarkostnaður of hár. Það gekk svo langt að nokkrir togarar voru seldir á uppboði að kröfu Fiskveiðasjóðs,“ segir Hjörtur.

Fiskifélagið var á þessum tíma mikilvægur þáttur í hagsmunagæslu sjávarútvegsins en þar sameinuðust allar helstu greinar sjávarútvegsins. Ég var í góðu sambandi við fiskimálastjóra á þessum árum og sat Fiskiþing sem haldin voru á haustin. Þar komu fram hugmyndir að stjórnun fiskveiða með kvótakerfi og á endanum samþykkti Fiskþing að veiðum yrðir stjórnað með framseljanlegri aflahlutdeild, sem byggðist á aflareynslu síðust þriggja ára með miklum niðurskurði. Alþingi samþykkti kvótakerfið í byrjun árs 1984 til eins árs til reynslu. Kerfið var svo framlengt til ársins 1990, þegar það var fest í sessi með nokkurn veginn frjálsu framsali aflahlutdeildar og ótímabundnum veiðiheimildum. Þannig fólu stjórnvöld útveginum sjálfum að sjá um nauðsynlega hagræðingu og úreldingu til að ná hagkvæmni í veiðum og sníða stærð flotans að leyfilegum heildarafla og sjálfbærni veiða án ríkisstyrkja. Í öðrum löndum var þessu öfugt farið.“

Sótti sýningar víða um heim
Hjörtur segist meðal annars hafa fengið innsýn í sjávarútveginn víða í heiminum í gegnum sjávarútvegssýningar sem hann sótti sótti. Árið 1984 var fyrsta íslenska sjávarútvegssýning haldin en einnig voru sýningar haldnar í Noregi, Danmörku, Bretlandi, Bandaríkjunum, Belgíu, Spáni og meira að segja á Nýfundnalandi.

„Það var mikið um ferðalög á þessum árum og ég heimsótti fiskmarkaði í Bretlandi og Þýskalandi og kynnti mér starfsemi íslenskra fyrirtækja erlendis. Ég heimsótti líka einnig töluvert af erlendum fyrirtækjum beggja vegna Atlantshafs, allt frá Svalbarða til Nýja Sjálands og Japans og kynnti mér fiskveiðistjórnun í Mexíkó, Perú og Chile,“ segir Hjörtur.
Árið 1992 var sett á þorskveiðibann í lögsögu Nýfundnalands en helstu miðin eins og Mikli Banki, höfðu verið gjöfulustu þorskveiðimið heims öldum saman. Ofveiði, meðal annars af hálfu Evrópusambandsins, keyrði þorskstofninn í þrot. Ég var fyrsti blaðamaðurinn utan Nýfundalands til að fara þangað og kynna mér og lesendum Morgunblaðsins stöðuna, orsakir og afleiðingar. Það var mjög lærdómsríkt,“ segir Hjörtur.

„Kapteinn“ Hjörtur.

En þrátt fyrir mikla vinnu við blaðamennskuna vann hann einnig að bókaskrifum og þar var sjávarútvegurinn sömuleiðis oftast í aðalhlutverki. Þó ekki í öllum tilvikum. Hjörtur skrifaði þrjár viðtalsbækur við sjómenn og útgerðarmenn undir heitinu Aflakóngar og athafnamenn á árunum 1987 til 1989, viðtalsbókina  Trillukarla og einnig var hann í hópi tíu þýðenda Perestrojku Gorbatjovs úr ensku en sú bók var þýdd á einum sólarhring! Síðan skrifaði Hjörtur ævisögu Soffaníasar Cecilssonar, sem og sögu Fiskifélags Íslands sem hann skrifaði ásamt Jóni Hjaltasyni. Að lokum nefnir hann þýðingu á bókinni Sjávarútvegur – fjölbreyttar áskoranir, sem hann þýddi úr færeysku.
„Ég skrifaði líka mikið fyrir sjávarútvegsráðuneytið, meðal annars námsefni í sjávarútvegsfræðum, vann fyrir EFTA og FAO og vann hjá FAO í Róm eitt sumar,“ bætir hann við.

Áfall að fá uppsögn á Mogganum
Morgunblaðið hóf á sínum tíma útgáfu á sérblaði um viðskipti sem naut mikilla vinsælda og segist Hjörtur hafa sótt fast við ritstjórana að sambærilegu sérblaði um sjávarútveg yrði ýtt úr vör.
„Mér var að ósk minni þegar við Ágúst Ingi Jónsson og Árni Jörgensen bjuggum til sérblaðið Úr verinu. Það kom fyrst úr haustið 1990, mjög vönduð útgáfa sem sinnti öllum helstu þáttum sjávarútvegsins og þjónustugreinum við hann. Þá voru erlendum fréttum gerð góð skil. Úr verinu var sameinað viðskiptablaðinu um tíma, en kom út á ný sem sérblað í mars 2005. Nokkru síðar tóku útrásarvíkingarnir völdin í atvinnulífinu og sjávarútvegurinn hvarf í skuggann. Það gerði Úr verinu líka og sjávarútvegurinn fékk að meðaltali eina síðu í blaðinu daglega,“ rifjar Hörtur upp.
Árið 2008 urðu ritstjóraskipti á Morgunblaðinu þegar Ólafur Stephensen, frændi Hjartar, tók við af Styrmi.
„Eitt af hans fyrstu verkum var að reka mig þegar ég kom úr fríi í maílok. Hann taldi enga þörf fyrir mann með sérhæfingu í sjávarútvegi enda skipti hann engu máli í samfélaginu. Annað átti reyndar eftir að koma í ljós. Seta Ólafs á ritstjórastóli var stutt og nú á sjávarútvegurinn Moggann.
Uppsögnin var mér gífurlegt áfall og kom mér gjörsamlega í opna skjöldu. Ég var hálf lamaður fyrst á eftir en fór fljótlega í ýmis konar íhlaupavinnu og setti meðal annars upp hvalasíðu fyrir LÍÚ og fór á hrefnuveiðar. Svo bauðst mér að rita sögu Fiskifélags Íslands ásamt Jóni Hjaltasyni. Það var kærkomið verkefni og kom sagan út árið 2011 með nafninu Undir straumhvörfum. Áður hafði ég unnið mikið með Gunnari Flóvenz að útgáfu Síldarsögu Íslands, sem kom út 2007.

Hjörtur og Helga á ferðalagi á Balí.

Traustið mikilvægt
Hjörtur segir að margs sé að minnast þegar hann líti yfir farinn veg í skrifum um sjávarútveg í fjóra áratugi.
„Mér er ofarlega í huga það traust sem ritstjórarnir á Mogganum, Matthías og Styrmir, höfðu á mér og gerðu mér kleift að komast inn í sjávarútveginn og studdu mig í vandasömum málum. Það kom nokkrum sinnum fyrir að embættismenn í stjórnkerfinu voru ekki sáttir við fréttir sem ég skrifaði og klöguðu í Styrmi. Klögurnar voru ekki vegna þess að skrifin væru ekki rétt. Það hentað embættismönnunum einfaldlega ekki að sannleikurinn væri sagður. Alltaf stóð Styrmir með mér í þessu og þegar honum fannst ég vera eitthvað að slaka á, hnippti hann hressilega í mig eins og ég átti skilið.
Mér tókst einnig að ávinna mér traust framámanna í sjávarútveginum, forystumanna hagsmunasamtaka og stjórnenda stóru fyrirtækjanna. Þar þurfti maður að sanna sig og sýna fram á þekkingu á viðfangsefninu. Eftir því sem þekking jókst varð traustið meira. Einn þessara manna var Kristján Ragnarsson, formaður og framkvæmdastjóri LÍÚ. Hann reyndist mér mjög vel og mér enn minnisstætt þegar ég náði í hann eftir langan vinnudag og hann var mjög upptekinn. Hann sagði nokkur orð og sagði svo: „Skrifaðu þetta bara Hjörtur minn. Þú veist hvað ég vil segja.“

Þessi teikning var gerð af fulltrúum í sendinefnd íslenska sjávarútvegsráðuneytisins þegar hún heimsótti sjávarútvegsráðuneyti Mexíkó árið 1992. Efsta röð frá vinstri. Jónas Gíslason, viðskiptafræðingur, Þorsteinn Pálsson, sjávarútvegsráðherra og Róbert Guðfinnsson, athafnamaður. Önnur röð: Hjörtur Gíslason, blaðamaður, Ingvar Guðmundsson, haffræðingur, Friðrik Pálsson, athafnamaður og neðst er Gunnar Svavarsson, athafnamaður.

Skammbyssa og fölur ráðherra!
Utanlandsferðirnar voru margar mjög eftirminnilegar og á framandi slóðir.
„Ein er för til Perú að mig minnir árið 1994 með Þorsteini Pálssyni, þáverandi sjávarútvegsráðherra, og föruneyti hans. Nefndin var flutt í fylgd vopnaðra hermanna af flugvellinum á hótel í Perú sem var víggirt og hermenn allt í kring. Okkur var bannað að yfirgefa hótelið af öryggisástæðum en fengum einu sinni að fara í útsýnisferð í fylgd vopnaðra varða og var ráðlagt að láta hvorki skartgripi né úr sjást til af freista ekki glæpamanna.Einn daginn fórum við til fundar við sjávarútvegsráðherra Perú, sem mig minnir að hafi heitið Sobero. Þangað fórum við að sjálfsögðu í lögreglufylgd. Fundurinn var ágætur og skipst á upplýsingum um sjávarútveg landanna. Að fundinum loknum bauð hann okkur til hádegisverðar. Farið var á hótel, sem að mestu leyti hafði verið rýmt í fylgd mikils fjölda lífvarða og hermanna. Þegar sest var að borðum sátu ráðherrarnir við borðsendann. Þegar sá perúski fór úr jakkanum blasti við stór og mikil skammbyssa í beltinu og ég hef aldrei séð mann fölna eins snögglega og eins og Þorstein þegar hann sá vopnið.
Við fórum dag einn í fiskimjölsverksmiðju rétt norðan við Lima og fórum í gegnum hafnarborgina Callao. Á leiðinni urðum við vitni að einhverri mestu fátækt sem til getur verið. Þar bjó fólk hreinlega í pappakössum og ótrúlegum hreysum án vatns og rafmagns og börnin leituðu ásamt hundunum að næringu á víðáttumiklum ruslahaugum. Það sló algjörri þögn á hópinn í bílnum þar til Árni Kolbeinsson braut upp þögnina með því að segja: „Heima höfum við húsbréf en hér eru bréfhús.“ Þegar við komum að fiskimjölsverksmiðjunni var hún öll undir beru lofti og gætt af vopnuðum her manna. Það skyldi enginn komast upp með að stela mjölinu.
Mig minnir að í þessari för hafi Þorsteinn Pálsson og fylgdarlið fagnað fréttum þar sem Norðmenn höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslu að sækja um aðild að ESB. Það var skálað fyrir tíðindunum!“

Fartölvan alltaf við hendina
Þegar ritun sögu Fiskifélagsins lauk hóf Hjörtur störf fyrir Ólaf M. Jóhannesson í Ritsýn og skrifaði greinar í blaðið Lyfjatíðindi. Um vorið 2013 stofnaði Ólafur vefmiðilinn kvotinn.is og var Hjörtur ritstjóri hans frá upphafi.
„Það gekk nokkuð vel en eftir nokkur ár færðist útgáfan til almannatengsla- og útgáfufyrirtækisins Athygli og fékk vefsíðan síðar nafnið Auðlindin. Athygli var síðan skipt upp og Ritform tók við útgáfunni árið 2018 en í öllum tilfellum fylgdi ég með.
Það eru því að nálgast 10 ár sem ég hef stýrt þessari útgáfu og með færslunni yfir til Athygli og síðar Ritforms skrifaði ég mikið í tímaritið Ægi og sjávarútvegsblaðið Sóknarfæri. Auðlindin hefur verið öflug fréttaveita fyrir sjávarútveg alla tíð og skrifin fyrir tímaritin hafa veitt mér mikla ánægju. Vefsíðan hefur verið mjög bindandi enda aldrei fallið úr virkur dagur í öll þessi ár. Til að geta farið í frí hefur tölvan verið fastur farangur og síðunni sinnt utan úr heimi gegnum netið, oftast frá Spáni en einnig frá Balí. Ég er þakklátur henni Helgu minni fyrir þolinmæðina, sem hún hefur sýnt mér í öll þessi árin. Það eru ekki allir sem þurfa að skrifa og safna saman fréttum alla frídaga í sól og sælu. Ég hef stundum sagt að ég sé með ferðaskrifstofu en nú er kominn tími til að láta staðar numið enda kominn á áttræðisaldurinn,“ segir Hjörtur.

Ritform ehf. færir Hirti alúðarþakkir fyrir samstarfið á liðnum árum og óskar þeim Helgu velfarnaðar á komandi árum.

 

Deila: