Áætla að taka á móti 100 þúsund tonnum af kolmunna

Deila:

Fyrstu farmarnir af kolmunna af miðunum við Færeyjar eru væntanlegir á næstu sólarhringum. Meðal þeirra skipa sem héldu til kolmunnaveiða strax eftir áramótin voru uppsjávarskip Síldarvinnslunnar og koma þau til með að landa aflanum til mjöl og lýsisframleiðslu í verksmiðjum fyrirtækisins í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Á heimasíðu Síldarivinnslunnar segir að gert sé ráð fyrir að verksmiðjunar taki á móti yfir 100 þúsund tonnum af kolmunna á árinu, sem yrði veruleg aukning frá í fyrra.
Hafþór Eiríksson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðjanna, segir í frétt að í fyrra hafi verksmiðjurnar samtals tekið á móti 77 þúsund tonnum af kolmunna en þar af tók verksmiðjan í Neskaupstað á móti 49 þúsund tonnum og verksmiðjan á Seyðisfirði 28 þúsund tonnum. Í sé hins vegar gert ráð fyrir að þær taki á móti 107 þúsund tonnum og þar af 78 þúsund tonnum frá Síldarvinnsluskipum.

Fiskimjölsverksmiðja SVN á Seyðisfirði. Ljósmynd: Ómar Bogason

Hafþór segir að verksmiðjan í Neskaupstað sé tilbúin í kolmunnavertíðina og sama segir Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri um verksmiðjuna á Seyðisfirði. „Hér er búið að sinna margvíslegu viðhaldi að undanförnu en nú er allt klárt. Við fengum tæplega tvö þúsund tonn af síld fyrir jólin og þá var sett í gang og allt prufukeyrt. Það var kærkomið að fá síldina og fá tækifæri til að keyra verksmiðjuna eftir lagfæringarnar,“ segir Eggert.

Meðfylgjandi er mynd af fiskimjölsverksmiðju SVN í Neskaupstað. Ljósmynd: Smári Geirsson

Deila: