Miklar hafnarframkvæmdir í Þorlákshöfn

Deila:

„Þær framkvæmdir sem nú standa yfir í höfninni hjá okkur munu standa næstu tvö árin og þær eru nauðsynlegar til að mæta síaukinni umferð um höfnina, sér í lagi auknum vöruflutningum. Það er hins vegar alveg ljóst að strax og þessum áföngum lýkur þá þurfum við að ráðast í ennþá viðameiri framkvæmdir með stækkun hafnarinnar því hafnarþjónusta okkar þarf að geta mætt þeim vexti sem við sjáum í vöruflutningum, sér í lagi tengt landeldi á laxi hér á svæðinu og sívaxandi útlutningi á jarðefnum,“ segir Benjamín Ómar Þorvaldsson, settur hafnarstjóri sveitarfélagsins Ölfuss, um framkvæmdir í höfninni í Þorlákshöfn sem nú standa yfir.  

Stærri skipum auðveldað að athafna sig 
Framkvæmdaverkefnið sem hófst fyrr á ári í höfninni er fjölþætt. Nú er unnið að því að reka niður stálþil en einnig verður gömul bryggja rifin, hún endurbyggð og snúið um leið. Þá er byrjað að lengja Suðurgarð um 250 metra og annar hafnargarður verður færður til að skapa meira rými innan hafnar. Loks verður öll höfnin dýpkuð í 9-9,5 metra. Dýpkunin verður lokaáfangi þessarar framkvæmdahrinu, að sögn Benjamíns.  

Benjamín Ómar Þorvaldsson, settur hafnarstjóri Ölfuss.

„Bæði dýpkunin og aðrir framkvæmdaþættir miða að því að skapa meira rými innan hafnar fyrir stóru skipin að snúa og athafna sig. Hagkvæmni í flutningum yfir hafið byggist á því að sigla á stórum skipum og við þurfum að geta mætt þeirri þróun,“ segir Benjamín en milli Þorlákshafnar og Rotterdam sigla ferjurnar Astral, Akranes og Mykines vikulega. Flutningar þeirra fara vaxandi með ári hverju og sama þróun er í flutningum annarra vöruflutningaskipa sem um höfnina fara.  

Kolefnissporið skiptir máli
Benjamín segir áhugann á höfninni stöðugt fara vaxandi enda stytti það siglingaleiðina talsvert að koma inn í Þorlákshöfn í stað þess að sigla á höfuðborgarsvæðið. „Kolefnissporið fær sífellt meira vægi þegar er verið að skoða siglingar, ekki bara gagnvart vöruflutningaskipum heldur einnig gagnvart fiskiskipum. Þegar fiskiskip eru á miðunum úti fyrir suðurströndinni þá kjósa þau í vaxandi mæli að koma hingað inn til löndunar og flytja fiskinn landleiðina þangað sem vinnslurnar eru á landinu. En hvað vöruflutningana varðar þá eru stöðugt að koma til okkar hugmyndir um nýjar áætlunarsiglingar en ótímabært að fjalla um þær fyrr en þá eitthvað yrði fast í hendi,“ segir Benjamín.  

Höfnin í lykilhlutverki í landeldisuppbyggingunni
Gríðarlega umfangsmikið landeldi á laxi í nágrenni Þorlákshafnar er að byggjast upp og framleiðsla eldisafurða til útflutnings á svæðinu mun stóraukast á komandi árum, gangi öll þau áform eftir sem ýmist er búið að hrinda í framkvæmd eða eru á undirbúningsstigi. Í þeirri uppbyggingu gegnir höfnin lykilhlutverki. 
„Við erum í þeirri stöðu að sjá fram á verulegan vöxt í starfsemi hafnarinnar sem útflutningshafnar á komandi árum. Af þeirri ástæðu getum við ekki látið staðar numið í uppbyggingu hennar og sjáum þörf fyrir verulega stækkun í beinu framhaldi af þeim framkvæmdum sem nú er unnið að. Sú stækkun er þegar komin á teikniborðið. Núverandi framkvæmdir eru á áætlun til 2025 og þá þarf stækkun hafnarinnar til norðurs að taka við. Útflutningur á eldisafurðum verður vaxandi þáttur á komandi árum, það liggur alveg fyrir. En við sjáum einnig verulegan vöxt í útflutningi á jarðefnum til Evrópulanda og á hverju ári eykst almenn frakt sem um höfnina fer,“ segir Benjamín og játar því að mikið sé sótt í lóðir í nágrenni hafnarinnar af fyrirtækjum sem sjá sér hag í að setja upp starfsemi sem nýtir útflutningsmöguleikana sem millilandasiglingarnar frá Þorlákshöfn hafa opnað. 
„Við höfum landrými hér við höfnina til að mæta þessari eftirspurn og hún er vaxandi,“ segir Benjamín.  

Deila: