Muggi kvaddi hafnarstjórastarfið

Deila:

Hafnarstjóraskipti urðu á Ísafjarðarhöfnum um áramótin þegar Guðmundur M. Kristjánsson lét af störfum eftir að hafa gegnt embættinu í 20 ár. Guðmundur, eða Muggi eins og hann er gjarnan nefndur, sagðist í frétt á vefnum BB, bæjarins besta, kveðja vinnustaðinn sáttur og óskaði jafnframt eftirmanni sínum, Hilmari Lyngmo, velfarnaðar í starfi. Jafnframt sagðist Guðmundur þurfa að byrja á því að átta sig á nýjum veruleika utan vinnumarkaðar en að hann sjái fyrir sér að gott verði að geta farið í ferðalög án þess að eitthvað knýi hann til heimferðar á tilsettum tíma.

Síðasta starfsdagur Mugga hjá Ísafjarðarhöfnum en hér er hann með Erni syni sínum, betur þekktum sem Mugison, og Rúnu Esradóttur, tengdadóttur sinni. Myndin birtist á vef Ísafjarðarbæjar

Anna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar sendi Mugga kveðju á heimasíðu sveitarfélagsins af þessu tilefni og sagði þar að það hafi verið við hæfi að sanddæluskipið Álfsnes hafi mætt í bæinn korteri fyir áramót til að hefja dýpkun hafnarinnar. Það hafi verið síðasta embættisverk Mugga sem hafnarstjóri að taka á móti skipinu en hann hafi skilað frábæru starfi á síðustu 20 árum fyrir Ísafjarðarbæ og haft mikil áhrif á þróun hafnarþjónustunnar.

Deila: